Endurskoðun ríkisreiknings 2005

By 6.11.2006 2006 No Comments

Við endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2005 ítrekar Ríkisendurskoðun mikilvægi þess að framkvæmd fjárlaga ríkisins styðjist við lagaákvæði. Þá leggur stofnunin áherslu á að ríkisstofnanir vinni í anda áhættustjórnunar og efli innra eftirlit hjá sér.
Í skýrslunni „Endurskoðun ríkisreiknings 2005“ dregur Ríkisendurskoðun saman helstu niðurstöður fjárhagsendurskoðunar sinnar fyrir árið 2005, en þá voru samtals 418 ársreikningar stofnana og fyrirtækja í ríkisreikningi með áritun endurskoðenda. Fram kemur að á árinu 2005 var afkoma A-hluta ríkissjóðs jákvæð um tæpa 113 ma.kr. sem svarar til tæplega 27% af heildartekjum ársins. Þetta er mikil breyting frá undanförnum árum þegar afkoma ríkissjóðs, ýmist jákvæð eða neikvæð, hefur verið á bilinu 1-4% af tekjum hans. Um helming þessarar jákvæðu afkomu má rekja til tekna af sölu Landssímans hf. en auk þess hafa skatttekjur ríkisins vaxið mjög undanfarin ár.

Í skýrslu sinni bendir Ríkisendurskoðun meðal annars á að í árslok 2005 námu ónýttar fjárheimildir 366 fjárlagaliða ríkisins 27,3 ma.kr. Á sama tíma hafði 141 fjárlagaliður farið 9,3 ma.kr. fram úr fjárheimildum ársins. Ríkisendurskoðun ítrekar þá skoðun sína að slíkur flutningur fjármuna milli ára veiki mjög framkvæmd fjárlaga. Sérstök athugasemd var gerð við 54 stofnanir þar sem útgjöld fóru 4% eða meira fram úr þeim fjárheimildum sem reglugerð um framkvæmd fjárlaga kveður á um. Þá var 14 stofnunum bent á að samkvæmt reglum fjármálaráðuneytisins um lána- og reikningsviðskipti ríkisstofnana í A-hluta ríkissjóðs er ríkisstofnunum óheimilt að fjármagna rekstur sinn með yfirdrætti á bankareikningi.

Í skýrslunni bendir Ríkisendurskoðun á að vanskil í virðisaukaskatti fari vaxandi og telur stofnunin tímabært að stjórnvöld kanni hvort ekki ætti að veita skattyfirvöldum heimild til að loka virðisaukaskattsnúmerum ef vanskil eru stórfelld. Þá ítrekar Ríkisendurskoðun fyrri ábendingar sínar um óraunhæfar áætlanir skattyfirvalda í helstu skattstofnum. Í því sambandi getur stofnunin þess að á árinu 2005 voru skattstofnar og skattar um 13 þúsund einstaklinga áætlaðir og nam áætlaður tekjuskattstofn 42,2 ma.kr.

Í opinberum rekstri eru gerðar síauknar kröfur um aukna hagkvæmni og skilvirkni auk krafna um góða þjónustu. Ríkisendurskoðun bendir á að innra eftirlit sé ein af áhrifaríkustu leiðum stjórnenda til að standa undir þessum kröfum. Auk þess er mikilvægt að stjórnendur meti þá áhættu sem felst í rekstrinum hverju sinni. Athugun Ríkisendurskoðunar gefur til kynna að enn vanti talsvert upp á að ríkisaðilar vinni í anda áhættustjórnunar og geri eiginlegt áhættumat fyrir starfsemi sína. Sérstaklega leggur stofnunin áherslu á mikilvægi þess að farið verði í saumana á þeim aðgerðum og öryggisráðstöfunum sem snúa að upplýsingakerfum stofnana og fyrirtækja ríkisins og eiga að stuðla að því að tjón eða tap verði sem minnst fari eitthvað úrskeiðis.

Við fjárhagsendurskoðun fyrir árið 2005 kannaði Ríkisendurskoðun sérstaklega hvernig stofnanir ríkisins stæðu að skráningu tekna sinna, umhirðu með reikningum og öðrum bókhaldsgögnum og kostnað þeirra vegna mötuneyta eða fæðispeninga til starfsmanna sinna.

Fram kom að rúmlega 90% allra stofnana ríkisins öfluðu einhverra tekna með starfsemi sinni á árinu 2005. Í langflestum tilvikum voru þær milli 0-10% allra gjalda en tæp 15% stofnana höfðu þó tekjur sem námu meira en 50% gjalda. Í þessari athugun vakti sérstaka athygli hve stofnanir ríkisins nota mörg tekjukerfi, ekki síst vegna þess að Fjársýsla ríkisins hefur á undanförnum árum unnið að því að innleiða nýtt fjárhagskerfi. Vegna þeirrar miklu fjárfestingar sem liggur í því kerfi þyrfti að mati Ríkisendurskoðunar að athuga hvers vegna stofnanir þurfa að nota jafn mörg tekjukerfi og raun ber vitni.

Athugun á umhirðu bókhaldsgagna, formreglum um þau og staðfestingu þar til bærra aðila á réttmæti þeirra leiddi í ljós að þessir þættir hafa batnað mjög á undanförnum árum. Hjá fjölmörgum stofnunum voru ekki gerðar neinar athugasemdir vegna þessara mála. Hjá öðrum stofnunum voru einkum gerðar athugasemdir við að ekki væri stuðst við lögformlega reikninga við færslu í bókhaldi og að ekki væri greint frá magni, einingum né tímafjölda sem krafist var greiðsla fyrir í fylgiskjölum vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu. Þá var ekki alltaf getið um tilefni risnureikninga, eins og skylt er samkvæmt reglum þar að lútandi.

Við könnun á mötuneyti starfsmanna og fæðisgreiðslum kom meðal annars í ljós að á árinu 2005 rak tæpur helmingur stofnana ríkisins mötuneyti í einhverri mynd eða hafði aðgang að mötuneyti í nálægum húsum. Í þessum stofnunum störfuðu rúmlega 80% allra starfsmanna sem lentu í úrtaki Ríkisendurskoðunar. Að meðaltali notuðu tæplega 40% þeirra mötuneytið. Leitast var við að meta árlegan kostnað stofnana vegna matar, kaffis og meðlætis og reyndist hann um 65 þús.kr. á hvern starfsmann. Almennt virðist greiðsla fæðispeninga heldur hagkvæmari en rekstur mötuneyta.