Engin ábending vegna skuldbindandi samnings forsætisráðuneytisins

Forsætisráðuneytið hefur í meginatriðum sinnt eftirliti og eftirfylgni með þjónustusamningi sínum við Vesturfarasetrið á Hofsósi í samræmi við ákvæði hans. Samningur þessi rann út í árslok 2011 jafnframt því sem forræði í málefnum setursins fluttist til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Það mun því héðan í frá annast samningsgerð við setrið og endurnýjun þjónustusamnings. Af þessum sökum sér Ríkisendurskoðun ekki ástæðu til að beina ábendingum vegna samningamála til forsætisráðuneytisins. Ríkisendurskoðun ákvað á síðasta ári að kanna framkvæmd, eftirlit og eftirfylgni ráðuneyta með samningum sem þau hafa gert við aðila utan ríkisins og skilgreindir eru sem „skuldbindandi samningar“ í fjárlögum. Á árinu 2011 féll aðeins einn samningur forsætisráðuneytis undir þessa skilgreiningu, þ.e. samningur þess við Vesturfarasetrið á Hofsósi. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að eftirlit og eftirfylgni ráðuneytisins hafi í meginatriðum verið í samræmi við ákvæði hans. Hins vegar er bent á að árangur samningsins hafi ekki verið metinn formlega. Þá sé ljóst að reglulegar úttektir samninga og endurskoðun þeirra í framhaldinu séu mikilvægir þættir í eftirliti og eftirfylgni ráðuneyta og stofnana. Þar sem forræði í málefnum setursins hefur nú flust til mennta- og menningarmálaráðuneytisins mun Ríkisendurskoðun hins vegar ekki beina ábendingum um úrbætur til forsætisráðuneytisins.
Skýrslan um samning forsætisráðuneytisins við Vesturfarasetrið er fjórða skýrslan sem Ríkisendurskoðun birtir um samningamál einstaks ráðuneytis. Áður eru komnar út skýrslur um skuldbindandi samninga innanríkisráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins og velferðarráðuneytisins.