Erfitt að meta árangur rammasamninga um innkaup

Bæta þarf skráningu innkaupa í bókhaldi ríkisins þannig að auðveldara verði að meta árangur af rammasamningum sem ríkið hefur gert um kaup á vörum og þjónustu.Í nýrri ábendingu Ríkisendurskoðunar er gerð athugasemd við framkvæmd og utanumhald svonefndra rammasamninga. Um er að ræða samninga við ýmis verslunar- og þjónustufyrirtæki sem veita opinberum aðilum afslátt af verði miðað við tiltekið heild­ar­magn innkaupa á samningstíma. Hinn 6. október 2011 voru samtals 577 slíkir samningar í gildi við 501 fyrirtæki. Ætlast er til að ríkisstofnanir noti ávallt þessa samninga við innkaup en í ábendingunni kemur fram að misbrestur hafi verið á því.  Þá gagnrýnir Ríkisendurskoðun að erfitt sé að meta árangur samninganna því að upplýsingar um viðskipti samkvæmt þeim séu ekki skráðar í bókhaldi ríkisins. Stjórnvöld hafi hingað til byggt mat sitt á ófullkomnum og gloppóttum gögnum frá fyrirtækjunum. Að mati Ríkisendurskoðunar er það óviðunandi og mikilvægt að fjármálaráðuneytið sjái til þess að skráning innkaupa í bókhaldi ríkisins verði þannig að unnt sé að meta framkvæmd rammasamninganna. Ráðuneytið tekur undir þessi sjónarmið stofnunarinnar og hyggst hefja vinnu við að leysa vandann.