Fækka ber stjórnsýslustigum við meðferð tjónamála vegna náttúruhamfara

Ríkisendurskoðun telur að fella eigi út eitt stjórnsýslustig af þremur við meðferð tjónamála vegna náttúruhamfara. Meðferð slíkra mála hjá Viðlagatryggingu Íslands, stjórn þeirrar stofnunar og úrskurðarnefnd er almennt í samræmi við stjórnsýslulög og lög um stofnunina.Viðlagatrygging Íslands heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið og hefur samkvæmt lögum það hlutverk að vátryggja gegn tjóni af völdum náttúruhamfara. Rísi ágreiningur um greiðsluskyldu eða fjárhæð vátryggingarbóta skal fimm manna stjórn stofnunarinnar úrskurða þar um svo fljótt sem auðið er. Tjónþoli getur skotið úrskurði stjórnar til fjögurra manna úrskurðarnefndar.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að í kjölfar Suðurlandsskjálftans árið 2008 hafi samtals um 4.850 tilkynningar vegna tjóns á mannvirkjum borist til Viðlagatryggingar Íslands. Að auki hafi um 3.000 tilkynningar um tjón á lausafjármunum borist. Um 84% málanna höfðu verið afgreidd innan árs frá jarðskjálftanum og í maí 2010 höfðu um 97% verið afgreidd. Í byrjun september sl. voru 13 mál sem rekja má til Suðurlandsskjálftans enn í vinnslu hjá stofnuninni. Að mati Ríkisendurskoðunar eru öll málin nema eitt í eðlilegum farvegi en þetta eina mál hefur m.a. tafist vegna árangurslausra tilrauna til að ná sáttum í því.

Ríkisendurskoðun telur að meðferð tjónamála hjá Viðlagatryggingu Íslands, stjórn stofnunarinnar og úrskurðarnefnd sé almennt í samræmi við stjórnsýslulög og lög um stofnunina. Hins vegar verði ekki séð að ástæða sé til að hafa þrjú stjórnsýslustig til að skera úr um ágreining á þessu sviði. Það sé m.a. til þess fallið að tefja mál. Ríkisendurskoðun hvetur því fjármála- og efnahagsráðuneytið til að fella út eitt stig, þ.e. kæru til stjórnar Viðlagatryggingar Íslands, samfara heildarendurskoðun á lögum um stofnunina. Þá telur Ríkisendurskoðun koma til greina að takmarka kærurétt tjónþola þegar hagsmunir eru smávægilegir enda sé kæruferlið kostnaðarsamt.

Þess má geta að skýrslan var unnin að beiðni forsætisnefndar Alþingis frá því fyrr á þessu ári og að frumkvæði Sigurðar Inga Jóhannssonar, alþingismanns og núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.