Ferli úttektar á samgönguframkvæmdum lokið

Ríkisendurskoðun hefur lokið ferli úttektar á samgönguframkvæmdum sem hófst fyrir sex árum. Árið 2008 gerði Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt sem m.a. laut að samgönguframkvæmdum hér á landi. Í skýrslu úttektarinnar var samtals átta ábendingum beint til samgönguráðuneytisins (nú innanríkisráðuneyti), Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar. Ríkisendurskoðun fylgir hverri stjórnsýsluúttekt sinni eftir með sjálfstæðri athugun á því hvernig brugðist hafi verið við ábendingum hennar. Slík eftirfylgni fer alla jafna fram u.þ.b. þremur árum eftir útgáfu skýrslu. Í samræmi við þetta kannaði stofnunin árið 2011 hvernig brugðist hefði verið við ábendingum fyrrnefndrar skýrslu. Í ljós kom að fimm þeirra höfðu komið til framkvæmda en stofnunin ítrekaði hinar þrjár: Innanríkisráðuneytið var hvatt til að kanna möguleika á því að flytja ábyrgð á mengunarvörnum á hafi frá Umhverfisstofnun til stjórnsýslustofnunar samgöngumála. Þá var Vegagerðin hvött til að byggja ákvarðanir sínar um samgönguframkvæmdir á vandaðri greiningu ólíkra kosta og nýta betur stærðarhagkvæmni í útboðsverkum.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að með lögum um Samgöngustofu, sem tóku gildi árið 2012, hafi Alþingi ákveðið að ábyrgð á mengunarvörnum á sjó skuli vera á hendi umhverfis- og auðlindaráðherra. Því telur Ríkisendurskoðun að ábending hvað þetta atriði varðar eigi ekki lengur við. Þá telur stofnunin að Vegagerðin hafi brugðist þannig við ítrekuðum ábendingum til hennar að ekki sé þörf á að ítreka þær öðru sinni. Með þessu lítur Ríkisendurskoðun svo á að aðkomu hennar að málinu sé lokið.