Finna þarf rekstri Lyfjastofnunar eðlilegan farveg

Ríkisendurskoðun telur áhyggjuefni hversu illa gengur að halda rekstri Lyfjastofnunar innan þess ramma sem Alþingi ákveður í fjárlögum. Lyfjastofnun og velferðarráðuneytið þurfi að tryggja að rekstur stofnunarinnar sé í samræmi við þá ákvörðun. Þá sé brýnt að vinna á uppsöfnuðum halla hennar frá fyrri árum með því að heimila henni að nýta bundið eigið fé sitt. Að mati Ríkisendurskoðunar þjónar engum tilgangi að láta hallann hvíla á stofnuninni sé ekki talið raunhæft að hún greiði hann upp.Í október árið 2009 beindi Ríkisendurskoðun nokkrum ábendingum til Lyfjastofnunar og heilbrigðisráðuneytis (nú velferðarráðuneyti). Ábendingarnar lutu m.a. að fjárhags- og verkefnastöðu Lyfjastofnunar og gjaldskrá hennar. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú, um tveimur og hálfu ári síðar, hefur flestum ábendinganna verið hrint í framkvæmd að hluta til eða öllu leyti. Lýsir Ríkisendurskoðun ánægju sinni með það. Þrjár ábendingar hafa hins vegar ekki leitt til æskilegra breytinga og eru þær ítrekaðar í skýrslunni. Þær varða einkum rekstur og fjárhag Lyfjastofnunar en hún hefur safnað upp nokkrum halla frá fyrri árum og auk þess gengið illa að samræma rekstraráætlanir og raunverulegt rekstrarumfang. Þá beinir Ríkisendurskoðun tveimur nýjum ábendingum til velferðarráðuneytisins.

Fram kemur að Lyfjastofnun hefur skilað rekstrarafgangi frá 2010 og gert er ráð fyrir afgangi árið 2012. Þrátt fyrir þetta nam uppsafnaðaður halli hennar um 216 milljónum króna í árslok 2011 og hafði þá meira en tvöfaldast frá árinu 2008. Þá hafa gjöld undanfarin ár verið meiri en fjárlög heimila að árinu 2010 undandskildu. Að mati Ríkisendurskoðunar er áhyggjuefni hversu illa Lyfjastofnun gengur að halda rekstrinum innan þess ramma sem Alþingi ákveður. Í skýrslunni er því beint til Lyfjastofnunar og velferðarráðuneytisins að tryggja að rekstur stofnunarinar sé í samræmi við fjárheimildir. Telji ráðuneytið fjárhagsrammann of þröngan ber því að beita sér fyrir breytingum á honum.

Undanfarin ár hafa svokallaðar markaðar tekjur Lyfjastofnunar (eftirlitsgjöld og árgjöld lyfja) verið umfram áætlun fjárlaga. Stofnuninni er hins vegar óheimilt að nýta þessar umframtekjur, sem nú nema um 313 m.kr., til að mæta uppsöfnuðum halla nema kveðið sé á um það í fjárlögum eða fjáraukalögum. Þessar umframtekjur leggjast inn á sérstakan höfuðstól, svokallað „bundið eigið fé“. Ríkisendurskoðun telur að velferðarráðuneytið þurfi að bregðast við óvenjulegri fjárhagsstöðu Lyfjastofnunar og finna hentuga leið til að vinna á hallanum. Að mati Ríkisendurskoðunar er eðlilegast að stofnunin fái að nýta bundið eigið fé sitt í þessu skyni. Ekki þjóni neinum tilgangi að láta þennan halla hvíla á stofnuninni sé ekki talið raunhæft að hún geti greitt hann upp.

Hluti af rekstrarvanda Lyfjastofnunar liggur í því að stofnunin fær ekki greitt sérstaklega fyrir ýmis lögbundin stjórnsýsluverkefni. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf velferðarráðuneytið að sjá til þess að gert verði ráð fyrir kostnaði stofnunarinnar af þessum verkefnum í fjárlögum.

Fram kemur að stofnuninni hafi gengið illa að samræma rekstraráætlanir og raunverulegt rekstrarumfang enda fyrirfram erfitt að áætla umfangið. Ef árið 2010 er undanskilið hefur Lyfjastofnun farið fram úr áætlunum síðustu fjögur ár og allt stefnir í að svo verði líka árið 2012. Ráðuneytið hefur samt sem áður samþykkt áætlanir stofnunarinnar og þannig farið gegn reglugerð um framkvæmd fjárlaga. Að mati Ríkisendurskoðunar verður ekki við slíkt búið.

Enn fremur segir í skýrslunni að Lyfjastofnun hafi ekki að öllu leyti náð að byggja upp faglega þekkingu og hæfni í eftirlitsstörfum sínum, þar sem samdráttur í ríkisútgjöldum hefur einkum bitnað á þessum hluta starfseminnar. Mikilvægt sé að úr þessu verði bætt eftir því sem fjárveitingar leyfa.