Fjárlaganefnd kalli ráðherra fyrir vegna vanda stofnana með verulegan uppsafnaðan halla

Ríkisendurskoðun telur að taka verði á vanda stofnana sem sitja uppi með verulegan uppsafnaðan rekstrarhalla frá fyrri árum. Að mati stofnunarinnar þjónar engum tilgangi að láta slíkan halla hvíla á stofnunum ef ekki er talið raunhæft að ætla að þær muni geta greitt hann upp.Í nýrri ábendingu Ríkisendurskoðunar kemur fram að afkoma ríkissjóðs á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var nokkru betri en áætlun gerði ráð fyrir. Tekjuhalli á tímabilinu nam 4 milljörðum króna en búist var við því að hann yrði nálægt 12 milljörðum. Skýringin er sú að tekjur voru 4 milljörðum króna umfram áætlun en gjöldin 4 milljörðum innan áætlunar. Gjöld allra ráðuneyta annarra en fjármálaráðuneytisins voru innan áætlunar en rekstur þess var þó svo gott sem á áætlun sem og vaxtagjöld ríkisins. Hins vegar voru gjöld æðstu stjórnar ríkisins, þ.e. Alþingis og undirstofnana þess, ríkisstjórnar, forsetaembættisins og Hæstaréttar, um 13% umfram áætlun og er skýringin að hluta til sú að stofnanir ganga nú á ónýttar fjárheimildir sínar frá fyrri árum.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir að ekki hafi verið tekið á rekstrarvanda stofnana sem sitja uppi með verulegan uppsafnaðan halla frá fyrri árum. Í ábendingunni eru taldar upp 19 stofnanir sem stóðu með hlutfallslega mestan uppsafnaðan halla í árslok 2011. Þar af eru þrjár sem ekki voru með neinn halla árið á undan. Að mati Ríkisendurskoðunar þjónar engum tilgangi að láta slíkan halla hvíla á stofnunum ef hvorki þær né hlutaðeigandi ráðuneyti telja raunhæft að ætla að þær muni geta greitt hann upp. Ríkisendurskoðun hvetur fjárlagnefnd til að kalla menntamálaráðherra, innanríkisráðherra, velferðarráðherra og umhverfisráðherra á sinn fund og krefja þá svara um hvernig tekið verði á rekstrarvanda stofnana með verulegan uppsafnaðan halla.

Fram kemur að sumar fyrrnefndra 19 stofnana hafi verið reknar innan fjárlaga hvers árs undanfarin ár en ekki getað unnið á uppsafnaða hallanum, t.d. Landspítali og lögreglustjórinn á Suðurnesjum. Samkvæmt gildandi reglum skulu rekstraráætlanir stofnana rúmast innan fjárheimilda þeirra. Þetta þýðir að ráðuneyti mega ekki samþykkja rekstraráætlanir nema að þar sé gert ráð fyrir að halli frá fyrri árum, sé um hann að ræða, verði að fullu greiddur á viðkomandi ári. Engu að síður eru dæmi um að ráðuneytin hafi samþykkt áætlanir þar sem ekki var gert ráð fyrir slíkri uppgreiðslu.