Fjárveitingar til hjúkrunarheimila drógust saman að raungildi

Opinberar fjárveitingar til hjúkrunarheimila drógust saman að raungildi milli áranna 2008 og 2010. Þrátt fyrir þetta tókst heimilunum almennt betur að laga rekstur sinn að tekjum seinna árið en hið fyrra. Tölur sem Ríkisendurskoðun kannaði benda ekki til þess að þjónusta við íbúa hafi verið skert á tímabilinu.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um rekstur hjúkrunarheimila fyrir aldraða á tímabilinu 2008–10, m.a. breytingar á tekjum þeirra, kostnaði og mönnun. Úttektin náði einkum til 34 hjúkrunarheimila af samtals 43 sem starfrækt voru í landinu árið 2010. Tekjur þessara heimila eru að langstærstum hluta opinber framlög. Í heild jukust þau um 6% milli áranna 2008 og 2010. Hins vegar hækkaði vegin vísitala verðlags og launa um 12,5% á sama tíma og því er ljóst að framlögin drógust saman að raungildi. Heildartekjur heimilanna jukust að jafnaði um 7% á tímabilinu og kostnaður þeirra um svipað hlutfall. Heimilunum gekk almennt betur að laga rekstur sinn að tekjum í lok tímabilsins en við upphaf þess.
Framboð hjúkrunarrýma á landsvísu stóð nánast í stað milli áranna 2008 og 2010. Á sama tíma fjölgaði ellilífeyrisþegum og meðalaldur þeirra hækkaði. Engu að síður fengu fleiri aldraðir hjúkrunarrými árið 2010 en árið 2008 og biðlistar styttust. Að jafnaði var umönnunarþörf íbúa á þeim 34 hjúkrunarheimilum sem úttekt Ríkisendurskoðunar náði til meiri síðara árið. Umönnunartími sem hver og einn íbúi fékk að meðaltali lengdist á tímabilinu. Þá fjölgaði ársverkum við umönnun nokkuð miðað við íbúafjölda heimilanna. Tölur sem Ríkisendurskoðun kannaði benda ekki til þess að álag á starfsmenn heimilanna hafi aukist á tímabilinu né að þjónusta við íbúa hafi skerst.
Þess má að lokum geta að skýrslan var unnin að beiðni forsætisnefndar Alþingis.
Uppfært 8. mars 2012