Fjölmennt hefur í meginatriðum starfað í samræmi við þjónustusamninga

By 15.01.2016 2016 No Comments

Ríkisendurskoðun telur að Fjölmennt, sjálfseignarstofnun sem sinnir fræðslumálum fatlaðs fólks, hafi í meginatriðum starfað í samræmi við þjónustusamninga hennar við ríkið. Í nýrri skýrslu hvetur Ríkisendurskoðun þó yfirvöld til að kanna þörf fólks með geðfötlun fyrir þjónustu á þessu sviði.

Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð, er sjálfseignarstofnun sem annast fullorðinsfræðslu fyrir fatlað fólk. Ríkið veitir árlega fjárframlag til starfsemi hennar samkvæmt þjónustusamningi. Áætlað er að framlagið nemi um 243 milljónum króna árið 2016.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Landssamtökin Geðhjálp fóru þess á leit við stofnunina að hún kannaði nýtingu framlaga ríkisins til Fjölmenntar. Að lokinni forkönnun varð niðurstaða Ríkisendurskoðunar sú að ekki væri tilefni til að gera úttekt á málinu. Að mati stofnunarinnar hefur Fjölmennt í meginatriðum starfað í samræmi við þjónustusamninga sína við ríkið. Meðal annars hefur þjónusta Fjölmenntar við fólk með geðfötlun verið í samræmi við þessa samninga. Ríkisendurskoðun hvetur þó mennta- og menningarmálaráðuneytið til að kanna þörf þessa hóps fyrir þjónustu á sviði fræðslumála.