Fjórar ábendingar frá 2010 ítrekaðar

Ríkisendurskoðun ítrekar fjórar ábendingar sínar frá árinu 2010 um stuðning við atvinnu- og byggðaþróun.Árið 2010 gerði Ríkisendurskoðun úttekt á stuðningi stjórnvalda við atvinnu- og byggðaþróun. Í skýrslu stofnunarinnar kom fram að iðnaðarráðuneytið (nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti) hefði yfirumsjón með stærstum hluta stuðnings ríkisins á þessu sviði ásamt tveimur undirstofnunum sínum, Byggðastofnun og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Einnig rynni fé úr ríkissjóði til átta atvinnuþróunarfélaga vítt og breitt um landið. Ríkisendurskoðun taldi að kerfið væri flókið og að yfirsýn skorti um fjárveitingar til málaflokksins. Þá taldi stofnunin skorta skýrari stefnu á þessu sviði, samvinna aðila væri ónóg og verkaskipting óljós.

Í skýrslunni beindi Ríkisendurskoðun samtals sex ábendingum til stjórnvalda. Nú þremur árum síðar telur stofnunin að brugðist hafi verið með fullnægjandi hætti við tveimur þeirra. Hins vegar eru eftirfarandi fjórar ábendingar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis ítrekaðar í nýrri eftirfylgniskýrslu:

  • Endurskoða þarf áherslur við stefnumótun á sviði atvinnu- og byggðaþróunar. Markmið og forgangsröðun þurfa að vera skýr og ljóst hvernig meta eigi árangur af aðgerðum.
  • Einfalda þarf stuðningskerfið, bæta yfirsýn um það og efla eftirlit með aðilum sem starfa innan þess.
  • Greina þarf væntan kostnað og ávinning vegna stuðnings við atvinnu- og byggðaþróun.
  • Ákveða þarf framtíðarhlutverk Byggðastofnunar og verkaskiptingu milli hennar og annarra stofnana.