Flokkar og frambjóðendur fá lengri frest

Frestur sem stjórnmálasamtök og frambjóðendur hafa til að skila upplýsingum um framlög fyrri ára til Ríkisendurskoðunar hefur verið framlengdur til 10. desember nk.Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda skal Ríkisendurskoðun taka við og birta upplýsingar um öll bein og óbein fjárframlög sem námu 200 þús.kr. eða hærri fjárhæð til

• Stjórnmálaflokka, jafnt landsflokkanna sem eininga sem undir þá falla eða tengjast rekstri og eignum þeirra, á tímabilinu 2002–2006.
• Frambjóðenda sem tóku þátt í forvali eða prófkjöri fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar á árunum 2006 og 2007.
• Frambjóðenda í kosningum til formanns eða varaformanns í flokkunum á tímabilinu 2005–2009.

Í ákvæðinu er hlutaðeigandi aðilum gefinn frestur til 15. nóvember nk. til að skila af sér upplýsingum en jafnframt er Ríkisendurskoðun veitt heimild til að framlengja þann frest um allt að mánuð. Stofnunin hefur nú ákveðið að framlengja frestinn til 10. desember nk.