Flugmálastjórn Íslands

By 14.05.2003 2003 No Comments

Flugöryggi hér á landi hefur aukist talsvert undanfarin ár vegna nýrra alþjóðlegra reglna og betra eftirlits Flugmálastjórnar. Nauðsynlegt er hins vegar að tryggja að flugþjónusta bíði ekki skaða vegna vinnudeilna flugumferðarstjóra og ríkisins. Þá mætti kanna hvort ekki væri heppilegt að færa starfsmannahald undir flugmála­stjóra til að skapa meiri einingu innan stofnunarinnar. Á sama hátt má telja eðli­legt að málefni Keflavíkurflugvallar heyri undir Flug­mála­stjórn og samgönguráðu­neytið en lúti ekki sérstakri stofnun utanríkis­ráðu­neytisins, Flugmálastjórn á Kefla­víkur­flugvelli. Að lokum er mikilvægt að sömu leikreglur gildi um Flugmálastjórn og um aðrar A-hluta stofnanir ríkisins um tilflutning á samþykktum fjárveitinga milli viðfangsefna.
Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér úttekt á starfsemi og rekstri Flugmálastjórnar Íslands, Flugmálastjórn Íslands. Stjórnsýsluendurskoðun (maí 2003). Meðal ástæðna þess að ráðist var í úttektina var sú gagnrýni sem beinst hefur að Flugmálastjórn vegna flugöryggismála. Að mati Ríkisendurskoðunar hefur margt færst til betri vegar í þeim efnum á allra síðustu árum. Það má einkum þakka nýjum og ítarlegum alþjóðareglum um flugöryggi og auknu og kerfisbundnara eftirliti Flugmálastjórnar með flugrekstraraðilum. Rannsóknarnefnd flugslysa hefur í ársskýrslum sínum birt tölur sem gefa til kynna að flugslysum og flugatvikum hafi fækkað nokkuð á síðustu árum. Þá benda úttektir erlendra aðila á borð við Alþjóðaflug­mála­stofnunina og Flugöryggissamtök Evrópu á starfsháttum Flugmála­stjórnar til þess að flugmálayfirvöld sinni flugöryggis­málum með fullnægjandi hætti. Það verður því ekki ályktað að flugöryggismálum sé verr sinnt hér á landi en í þeim löndum sem Íslendingar bera sig helst saman við.

Að mati Ríkisendurskoðunar má þó gagnrýna hvernig nýjar kröfur Flugöryggissamtaka Evrópu um flug og flugstarfsemi hafa verið innleiddar hér á landi en þar hafa verið farnar ýmsar leiðir. Stundum hefur Flugmálastjórn tekið ákvörðun um að innleiða þær en stundum hefur samgönguráðuneytið kveðið á um þær með reglugerðum. Þetta veldur því að staða reglna er afar mismunandi og oft óljós. Ríkisendurskoðun telur að samgöngu­ráðuneytið og Flug­málastjórn þurfi að koma á skýrari verkaskiptingu í þessum efnum.

Ríkisendurskoðun leggur áherslu á mikilvægi þess að sátt ríki um kaup og kjör flugum­ferðar­stjóra svo að hægt sé að tryggja eðlilegar flugsamgöngur og alþjóðlegar skuldbind­ingar. Flugumferðarstjórar hafa náð betri árangri í kjarasamningum undanfarin ár en aðrir ríkisstarfsmenn. Sætti þeir sig ekki við sömu hækkanir og aðrir verður ríkisvaldið að meta hvort slíkt sé sanngjarnt. Telji það að svo sé ekki verður að láta á það reyna hvort flugumferðarstjórar vilji ná fram kröfum sínum með vinnudeilum. Um leið verða þeir að taka ábyrgð á því hvort alþjóða­flug­þjónusta verði veitt héðan í framtíðinni en vitað er að hægt er að sinna henni frá öðrum löndum.

Innan flugmálastjórnar vinnur býsna stór hópur fólks sem bæði sinnir margvíslegum störfum og býr við ólík launakjör. Almennt eru kjör flugumferðarstjóra mun betri en annarra hópa. Ríkisendurskoðun telur æskilegt að flugmálastjóri sinni meir en nú er þeim mikilvægu og oft flóknu verkefnum sem snúa að starfsmannahaldi. Lagt er til að kannað verði hvort ekki megi færa starfsmannahald til hans frá fjármála- og þróunarsviði.

Þeirri hugmynd hefur verið hreyft að skipta starfsemi Flugmálastjórnar upp í tvær eða fleiri sjálfstæðar stofnanir eins og gert hefur verið í sumum nágranna­­ríkjum okkar. Þar sinnir ein stofnun stjórnsýslu og eftirliti en önnur rekstri flugvalla og/eða flugumferðar­þjónustu. Ástæður þessa eru einkum tvær. Annar vegar sú að ýmsir þættir í starfsemi flugmálastjórna eru taldar henta vel til að vera reknir á viðskiptalegum grundvelli. Hins vegar hefur ekki þótt heppilegt að sami aðili sjái um eftirlit og útgáfu starfsleyfa og önnur stjórnsýsluverkefni og beri jafnframt ábyrgð á starfsemi sem eftir atvikum þarf að hlíta slíku eftirliti og leyfisveitingum. Nefna má að í reynd hafa einstök svið Flugmála­stjórnar nú þegar mjög mikið sjálfstæði, t.d. flugöryggissvið. Að mati Ríkisendur­skoð­unar er ástæða til að kanna þennan möguleika.

Í úttekt sinni hugaði Ríkisendurskoðun sérstaklega að stöðu Keflavíkurflugvallar og tengslum hans við Flugmálastjórn, en starfsemi og rekstur þessa ­flugvallar heyrir undir sérstaka stofnun, Flugmálastjórn á Keflavíkur­flug­velli, sem aftur heyrir undir varnar­málaskrifstofu utan­ríkis­ráðuneytisins. Þetta fyrirkomulag á sér söguleg rök en er á ýmsan hátt óheppilegt. Æskilegra væri að málefni flugvallarins heyrðu með beinni hætti undir Flugmálastjórn og samgönguráðuneytið. Það virðist a.m.k. rík ástæða til að skýra betur en nú er gert stjórnsýslulega stöðu þeirra tveggja stofnana sem sinna flugumsjón hér á landi og ábyrgð þeirra á málefnum flugvallarins. Í þessu samhengi má benda á að Alþjóðaflug­málastofnunin hefur bent á að skilgreina þurfi með skýrari hætti ábyrgð og valdsvið Flug­mála­­stjórnar á borgaralegri flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli. Að mati Ríkisendur­skoðunar mætti skoða hvort ekki væri hægt að sameina Flugmálastjórn og Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli eða a.m.k. tiltekna þætti í starfsemi þeirra, svo sem flugumferðar­þjónustu og flugverndarmál.

Ríkisendurskoðun telur að sömu leikreglur eigi að gilda um Flugmálastjórn og aðrar A-hluta stofnanir um tilflutning á samþykktum fjárveitinga milli viðfangsefna. Í þessu sam­bandi þarf að skýra hvaða heimildir voru fyrir meiriháttar framkvæmdum vegna viðhalds á flugturn­inum á Reykja­víkur­flugvelli á árunum 2001 og 2002. Þá er mikilvægt að fjármála- og samgönguráðuneyti ákveði hvernig ráðstafa skuli uppsöfnuðum tekjuafgangi vegna Alþjóðaflugþjónustunnar og geri tillögu þar um í lokafjár­lögum. Í því sambandi ber að minnast þess að hugsanlega er um tímabundinn hagnað að ræða. Nauðsynlegt er að lögð verði fyrir Alþingi tillaga í lokafjárlögum um uppgjör á stöðu fjárheimilda Flugmála­stjórnar og flugvalla.