Forsendur gjaldskrár Samgöngustofu skýrar

Ríkisendurskoðun gerir ekki athugasemdir við þau þjónustugjöld sem Samgöngustofa innheimtir. Þetta kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt um innheimtu kostnaðar hjá Samgöngustofu sem unnin var að beiðni Alþingis.

Ríkisendurskoðun telur að forsendur gjaldskrár Samgöngustofu séu skýrar og að mestu leyti sambærilegar við gjaldskrár annarra sambærilegra eftirlitsstofnana. Oftast nær fela þjónustugjöld hennar í sér fast krónugjald fyrir tiltekna þjón­ustu, óháð því hvar þjónustan er veitt eða hve langan tíma tekur að veita hana. Samkvæmt lögum er stofn­un­inni þó í viss­um tilvik­um heim­ilt að inn­­heimta tímagjald fyrir hverja klukku­stund sem skoðun eða mat tekur og sömuleiðis er henni stundum heimilt að innheimta ferðakostnað eftirlitsmanna. Stofnuninni hefur aðeins borist ein formleg kvörtun um lögmæti gjaldtöku og leiddi sú kvörtun til lækkaðs tímagjalds.

Gjaldskrá Samgöngustofu hefur ekki verið endurskoðuð frá því að stofnunin var sett á fót 1. júlí 2013. Samgöngustofa og innanríkisráðuneyti eru hvött til þess að slíkt sé gert og tryggja þar með að upphæð þjónustugjalda samsvari jafnan þeim kostnaði sem liggur að baki þeirri þjónustu sem veitt er. Þá er Samgöngustofa hvött til að efla verkbókhald sitt svo að auðveldara sé að greina kostnað við þjónustuna. Fram kemur í skýrslunni að stefnt sé að því að vinna að þessum úrbótum í ár.