FR breyti verklagi við innkaup

Ríkisendurskoðun telur að Fasteignir ríkissjóðs (FR) þurfi að breyta verklagi sínu við kaup á þjónustu til að jafnræðis milli fyrirtækja sé gætt.Athugun Ríkisendurskoðunar hefur leitt í ljós að eitt fyrirtæki hefur annast alla málningarþjónustu fyrir FR á Akureyri og Laugum í Reykjadal undanfarin þrjú ár. Sama fyrirtæki mun annast öll málningarverkefni fyrir FR á Akureyri á þessu ári. Samið var beint við fyrirtækið um þessi verkefni og ekki leitað tilboða frá öðrum.
Í ábendingu frá Ríkisendurskoðun kemur fram að stofnunin telur að umrædd viðskipti fari í bága við 22. gr. laga um opinber innkaup. Þar er sú skylda lögð á herðar opinberum stofnunum að gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja ef fjárhæðir innkaupa eru undir viðmiðunarmörkum útboðsskyldu. Að mati Ríkisendurskoðunar þurfa FR að endurskoða verklag sitt við innkaup með það að markmiði að gæta jafnræðis milli fyrirtækja.