Frambjóðendur í prófkjörum minntir á upplýsingaskyldu

Ríkisendurskoðun hefur sent frambjóðendum í prófkjörum bréf þar sem minnt er á skyldu þeirra að upplýsa um kostnað vegna kosningabaráttunnar. Þá hefur stofnunin sett gögn á heimasíðu sína sem eiga að auðvelda frambjóðendum að rækja þessa upplýsingaskyldu.Samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, sem sett voru árið 2006, ber frambjóðendum sem hafa meiri kostnað af kosningabaráttu en 300 þús.kr. að skila fjárhagslegu uppgjöri vegna hennar til Ríkisendurskoðunar. Ef kostnaður frambjóðanda er 300 þús.kr. eða minni skal hann þó einungis skila stofnuninni skriflegri yfirlýsingu þar um.
Í bréfi Ríkisendurskoðunar eru frambjóðendur í prófkjörum vegna Alþingiskosninganna 25. apríl nk. minntir á framangreinda upplýsingaskyldu. Jafnframt eru þeir minntir á þær reglur sem gilda um leyfilegan heildarkostnað frambjóðenda en hann miðast við íbúafjölda á viðkomandi kjörsvæði. Þá er athygli vakin á því að samkvæmt lögunum er frambjóðendum óheimilt að taka á móti hærri framlögum frá einstaklingum og lögaðilum en sem nemur 300 þús.kr. á ári. Loks er frambjóðendum veittur frestur fram til 25. október 2009 til að skila umræddum gögnum til Ríkisendurkoðunar.
Texta bréfsins, sýnishorn af reikningsskilum frambjóðanda og sýnishorn af yfirlýsingu frambjóðanda sem hefur 300 þús.kr. eða minni kostnað af kosningabaráttu má sjá með því að smella á hlekkina hér fyrir neðan.
Sýnishorn af reikningsskilum frambjóðanda
Sýnishorn af yfirlýsingu frambjóðanda sem hefur 300 þús.kr. eða minni kostnað af kosningabaráttu