Frekari athugun ekki fyrirhuguð

Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um málefni Kvikmyndaskóla Íslands vill Ríkisendurskoðun koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri. Hinn 10. ágúst sl. óskaði mennta- og menningarmálaráðuneytið eftir því að Ríkisendurskoðun legði mat á það hvort ráðuneytið hefði nauðsynleg gögn til að meta fjárhagslega stöðu og rekstrarhæfi skólans. Ráðuneytið fékk afrit af minnisblaði starfsmanns stofnunarinnar til ríkisendurskoðanda þar sem fram kom að sökum þess að bókhald skólans hefði ekki verið fært síðan í mars sl. og ársreikningar hans ekki endurskoðaðir væri erfitt að segja til um hvort gögn ráðuneytisins gæfu rétta mynd af stöðunni. Ljóst væri þó að skólinn væri ekki rekstrarhæfur nema eiginfjárstaða hans yrði styrkt. Samdráttur í rekstri og/eða frestun á viðhaldi og endurnýjun búnaðar dygðu ekki til. Í þessu efni var bent á þrjár leiðir: að eigendur skólans kæmu með nýtt fé inn í reksturinn, að til kæmu verulegar afskriftir skulda eða að ríkið legði skólanum til fé og hækkaði árleg framlög til hans. Tekið var fram í minnisblaðinu að ekki væri rétt að mæla með síðastnefndu leiðinni meðan svo mikil óvissa ríkti um rekstur skólans.
Að svo stöddu mun Ríkisendurskoðun ekki að eigin frumkvæði ráðast í frekari athugun á fjárhagsstöðu skólans eða fjárhagslegum samskiptum hans við ríkisvaldið.