Fyrirkomulag verktakagreiðslna hjá Fasteignaskrá gagnrýnt

Í nýrri skýrslu gagnrýnir Ríkisendurskoðun það fyrirkomulag sem verið hefur á verktaktagreiðslum hjá Fasteignaskrá Íslands.Fram kemur að á árunum 2000 til 2009 hafi Fasteignaskrá greitt fyrirtækinu Tölvuskjölum ehf. meira en 100 m.kr. fyrir verktakaþjónustu. Samkvæmt samningi milli þessara aðila skuli tiltekinn starfsmaður fyrirtækisins stýra tölvudeild stofnunarinnar, hafa vinnuaðstöðu þar og fastan viðverutíma.
Að mati Ríkisendurskoðunar er þetta fyrirkomulag óeðlilegt og ber öll merki svokallaðrar gerviverktöku. Í kjölfar samskipta við Ríkisendurskoðun ákvað Fasteignaskrá að enda umræddan verksamning og hefur starf forstöðumanns tölvudeildar stofnunarinnar nú verið auglýst. Í skýrslunni eru ríkisstofnanir minntar á mikilvægi þess að fylgja reglum um mun verktakavinnu og launþegavinnu og að auglýsa jafnan laus störf.
Þess má geta að skýrslan er fjórða áfangaskýrsla Ríkisendurskoðunar sem fjallar um úttekt hennar á innkaupamálum ríkisins. Áður eru komnar út skýrslur um innkaupastefnu ráðuneytanna, verktakagreiðslur Háskóla Íslands og viðskipti ríkisstofnana við úrtak 800 birgja.