Fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu. Stjórnsýsluúttekt á rekstri Heilsugæslunnar í Reykjavík

By 13.09.2002 2002 No Comments

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um rekstur Heilsugæslunnar í Reykjavík (HR) eru settar fram ýmsar ábendingar til stjórnenda og heilbrigðisyfirvalda um hvernig bæta megi nýtingu fjármuna hjá stofnuninni. Fram kemur í skýrslunni að komum sjúklinga miðað við ársverk lækna á heilsugæslustöðvum hefur farið fækkandi síðustu ár. Bent er á að ástæður þessarar þróunar séu margvíslegar, t.a.m. hafi vinnuaðferðir lækna og eðli þjónustunnar breyst og frítaka lækna hafi aukist. Einnig kemur fram það mat Ríkisendurskoðunar að hugsanlega hafi breytingar á launafyrirkomulagi lækna haft áhrif í þessu sambandi. Ríkisendurskoðun telur að HR mæti ekki að fullu eftirspurn eftir almennri læknisþjónustu á starfssvæði sínu og nái þar af leiðandi ekki því markmiði að vera „fyrsti viðkomustaður“ skjólstæðinga sinna í heilbrigðiskerfinu, líkt og stjórnvöld ætlast til. Í skýrslunni er stjórnendum HR bent á ýmsar leiðir sem Ríkisendurskoðun telur að geti hugsanlega orðið til að bæta nýtingu fjármuna hjá stofnuninni. Þá þurfi heilbrigðisyfirvöld að móta skýrari stefnu um hlutverk heilsugæslunnar innan heilbrigðiskerfisins og huga að breytingum á launafyrirkomulagi heilsugæslulækna.
Kannað var hvernig komufjöldi sjúklinga til lækna á heilsugæslustöðvum HR þróaðist á tímabilinu 1997-2001. Niðurstöður athugunar leiða í ljós að í heild jókst fjöldinn um tæplega 9% en komum miðað við hvert ársverk læknis fækkaði um tæplega fimmtung. Í skýrslunni kemur fram að mögulegar ástæður þess að komufjöldi miðað við ársverk lækna hafi minnkað séu margvíslegar. Athugun Ríkisendurskoðunar leiði í ljós að ákveðin breyting hafi orðið á verklagi lækna hjá HR og samsetningu þess sjúklingahóps sem leitar eftir þjónustu heilsugæslustöðvanna. Læknar verji nú minni hluta af vinnutíma sínum í að sinna almennri móttöku sjúklinga en þeir hafi áður gert og hverjum sjúklingi sé að jafnaði ætlaður lengri viðtalstími. Einnig hafi orðið sú breyting á síðustu árum að læknar nýti rétt sinn til frítöku almennt betur en áður hafi tíðkast. Að mati Ríkisendurskoðunar megi ætla að þessar breytingar skýri að hluta hvers vegna biðtími eftir þjónustu lækna á heilsugæslustöðvunum hefur almennt lengst og einingarverð þjónustunnar hækkað.

Nefnt er að ein hugsanleg ástæða þess að hver læknir HR sinnti að meðaltali færri komum sjúklinga árið 2001 en árið 1997 sé sú breyting sem varð á launafyrirkomulagi heilsugæslulækna þegar Kjaranefnd var falið að úrskurða um launakjör þeirra. Framkvæmd úrskurðar Kjaranefndar innan HR hafi haft í för með sér að komið hafi verið á fastlaunakerfi hjá læknum stofnunarinnar í stað afkastahvetjandi launakerfis. Niðurstöður alþjóðlegra rannsókna á launakerfum lækna bendi til þess að fastlaunakerfi skili minni afköstum en annars konar launakerfi og telur Ríkisendurskoðun að út frá því megi álykta að breytt launakerfi valdi einhverju, beint eða óbeint, um að læknar á heilsugæslustöðvunum HR sinntu færri komum árið 2001 en árið 1997.

Í skýrslunni kemur fram að eftirspurn eftir læknisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu hafi farið jafnt og þétt vaxandi síðustu ár, m.a. vegna fólksfjölgunar á svæðinu og breyttrar aldurssamsetningar íbúa. Til marks um þessa þróun megi nefna að komum sjúklinga til sjálfstætt starfandi klínískra sérfræðilækna hafi fjölgað um 16% milli áranna 1997 og 2001 og komum á móttökur slysa- og bráðasviðs Landspítala-Háskólasjúkrahúss (L-H) um tæplega fjórðung. Ríkisendurskoðun telur ýmislegt benda til þess að miðað við núverandi aðstæður mæti HR ekki að fullu eftirspurn eftir almennri læknisþjónustu á þjónustusvæði sínu. Þar af leiðandi sé ljóst að stofnunin nái ekki sem skyldi því markmiði að vera fyrsti viðkomustaður skjólstæðinga sinna í heilbrigðiskerfinu, líkt og stjórnvöld ætlist til.

Í skýrslunni eru settar fram ýmsar ábendingar til stjórnenda HR og heilbrigðisyfirvalda um hugsanlegar leiðir til úrbóta. Stjórnendur eru t.a.m. hvattir til að setja skýr markmið um komufjölda og hámarkslengd biðtíma, kanna leiðir til að auka vaktþjónustu á opnunartíma heilsugæslustöðvanna, og að nýta betur upplýsingar um kostnað og rekstur við stjórnun stofnunarinnar. Ríkisendurskoðun telur að yfirvöld þurfi að móta skýrari stefnu um verkaskiptingu innan heilbrigðiskerfisins, stöðu og hlutverk heilsugæslunnar innan þess, og framfylgja þeirri stefnu. Einnig álítur Ríkisendurskoðun að yfirvöld þurfi að afla gleggri vitneskju um afleiðingar núverandi fyrirkomulags, bæði heilsufarslegar og fjárhagslegar, m.a. í samanburði við aðrar hugsanlegar lausnir. Full ástæða sé til þess, m.a. í ljósi alþjóðlegra rannsókna og reynslu annarra ríkja, að yfirvöld kanni vandlega kosti og galla þess að heilsugæslan fái aukið hlutverk við að stýra aðgengi sjúklinga að heilbrigðiskerfinu.

Ríkisendurskoðun telur einnig að huga beri að breytingum á launafyrirkomulagi heilsugæslulækna. Núverandi fastlaunakerfi er að mati stofnunarinnar óheppilegt, m.a. þar sem niðurstöður alþjóðlegra rannsókna benda til þess að slíkt fyrirkomulag hafi neikvæð áhrif á afköst samanborið við annars konar umbunaraðferðir og stuðli að myndun biðlista. Almennt álítur Ríkisendurskoðun að launakjör heilsugæslulækna eigi að ráðast í samningaviðræðum milli þeirra og stjórnvalda en ekki með úrskurði kjaranefndar.