Ganga þarf frá málefnum Lækningaminjasafns Íslands

Í árslok 2012 ákvað Seltjarnarnesbær að hætta rekstri Lækningaminjasafns Íslands og afhenda Þjóðminjasafni Íslands safnmunina. Ástæðan var sú að ekki náðist samkomulag milli ríkis og bæjar um skiptingu kostnaðar vegna byggingar safnhúss og reksturs safns. Ríkisendurskoðun telur að forsætisráðuneyti og Þjóðminjasafn Íslands þurfi að ákveða hvernig varðveislu og sýningu lækningaminja verði framvegis háttað. Eins hvetur stofnunin mennta- og menningarmálaráðuneyti til að ganga hið fyrsta frá fjárhagslegu uppgjöri við Seltjarnarnesbæ vegna 75 milljóna króna stofnframlags ríkisins til safnbyggingarinnar. Loks telur Ríkisendurskoðun að mennta- og menningarmálaráðuneyti beri að vanda betur til samninga sinna.Í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar er fjallað um samning mennta- og menningarmálaráðuneytis, Seltjarnarnesbæjar, Þjóðminjasafns Íslands og félaga lækna frá árinu 2007 um byggingu og rekstur safnhúss á Seltjarnarnesi fyrir Lækningaminjasafn Íslands. Samkvæmt honum skyldi bæjarfélagið bera fjárhagslega ábyrgð á byggingu og rekstri safnsins. Aðrir samningsaðilar skyldu leggja fram tiltekin fjárframlög vegna stofnkostnaðar og var ekki ráðgert að þau tækju mið af byggingavísitölu eða kostnaðarhækkunum. Áætlað var að heildarkostnaður við byggingu hússins næmi 345 milljónum króna. Þar af skyldu ríkið og læknafélögin leggja til 235 milljónir króna en Seltjarnarnesbær það sem á vantaði. Hluti af framlögum hinna fyrrnefndu var erfðagjöf Jóns Steffensen prófessors til íslenska ríkisins sem þá var metin á 110 milljónir króna. Sú gjöf var bundin þeim skilyrðum að fénu yrði varið í þágu lækningaminjasafns í Nesstofu á Seltjarnarnesi. Eins skyldi mennta- og menningarmálaráðneyti styrkja reksturinn með árlegu framlagi sem væri bundið vísitölu.

Byggingarframkvæmdir hófust haustið 2008 og tók safnið til starfa árið eftir en flutti aldrei inn í nýja húsnæðið sem enn hefur ekki verið lokið við. Um miðjan desember 2012 sagði Seltjarnarnesbær sig frá samningum þar sem ekki náðist samkomulag við mennta- og menningarmálaráðuneyti um aukin framlög ríkissjóðs til verkefnisins. Bæjarstjórn taldi að forsendur samningsins væru brostnar, einkum vegna þess að heildarkostnaður við safnbygginguna hefði farið langt fram úr áætlun. Hann var þá áætlaður um 700 milljónir króna eða tvöfalt meiri en upphaflega var gert ráð fyrir. Jafnframt taldi bæjarfélagið að rekstrarkostnaður safnsins hefði verið vanáætlaður í upphafi og að hlutdeild sín í honum væri of mikil. Að svo komnu máli lagði bæjarstjórn safnið niður og afhenti Þjóðminjasafni Íslands þá muni sem það hafði varðveitt.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að ríkissjóður og læknafélögin hafi staðið við sinn hluta samningsins og að mennta- og menningarmálaráðuneyti hafi hvorki talið sér fært né skylt að auka framlög sín vegna verkefnisins eða endurskoða samninginn með öðrum hætti. Þar sem Lækningaminjasafn Íslands hefur verið lagt niður hvetur Ríkisendurskoðun mennta- og menningarmálaráðuneyti til að ganga hið fyrsta frá fjárhagslegu uppgjöri við Seltjarnarnesbæ vegna 75 milljón króna stofnframlags ríkisins. Eins hvetur Ríkisendurskoðun forsætisráðuneyti, sem nú fer með málefni Þjóðminjasafns Íslands, til að beina því til safnsins að það taki hið fyrsta ákvörðun um hvernig hátta skuli varðveislu og sýningu lækningaminja á komandi árum. Í því sambandi ber ráðuneytinu bæði að gæta að því að varðveisla menningararfs er langtímaverkefni og að tryggja að tekið verði tillit til þeirra kvaða sem ríkið gekkst undir með því að þiggja erfðagjöf Jóns Steffensen árið 2000 með þeim skilyrðum sem henni fylgdu. Fyrir liggur hins vegar að hvorki mennta- og menningarmálaráðuneyti né þjóðminjavörður telja fýsilegt að ríkið reki sérstakt lækningaminjasafn.

Loks bendir Ríkisendurskoðun mennta- og menningarmálaráðuneyti á að vanda þurfi vel til þeirra samninga sem það gerir við einkaaðila, samtök eða sveitarfélög um verk eða þjónustu. Gæta þarf að því að kostnaðaráætlanir séu unnar á faglegan hátt, að samningsákvæði séu skýr og að ráðuneytið hafi öflugt eftirlit með framkvæmd samninga og framvindu verkefna til að tryggja bæði faglega og fjárhagslega hagsmuni ríkisins. Að mati Ríkisendurskoðunar má að hluta til rekja ófarir Lækningaminjasafns Íslands til þess að ekki var staðið nægilega vel að slíkum þáttum.