Gengið verði frá langtímasamningum við SÁÁ

Þjónustusamningar ríkisins við Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið (SÁÁ) gilda aðeins í einn mánuð í senn. Ríkisendurskoðun telur brýnt að gerðir verði samningar við SÁÁ til lengri tíma, m.a. til að samtökin geti uppfyllt ákvæði laga um opinber innkaup.Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið (SÁÁ) veita áfengis- og vímuefnameðferð samkvæmt þjónustusamningum við ríkið. Á síðasta ári sömdu samtökin við fyrirtækið Bragðgott ehf. um að annast rekstur mötuneytis á sjúkrahúsinu Vogi og meðferðarheimilinu Vík. Reksturinn var ekki boðinn út eins og lög um opinber innkaup gera almennt ráð fyrir þegar um er að ræða umfangsmikil vöru- eða þjónustukaup. SÁÁ fellur undir lögin þar sem starfsemi samtakanna er að stórum hluta fjármögnuð með almannafé.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að SÁÁ töldu ekki ástæðu til að bjóða reksturinn út þar sem aðeins stóð til að umrætt fyrirtæki annaðist hann tímabundið til reynslu. Að auki töldu samtökin að ekki hefði verið nægur tími til að undirbúa útboð og að ferlið hefði valdið óvissu og getað haft slæm áhrif á starfsanda og skjólstæðinga samtakanna. Ríkisendurskoðun hefur skilning á því að aðstæður SÁÁ hafi verið erfiðar þegar ákveðið var að ganga til samninga við Bragðgott ehf. Engu að síður telur stofnunin að lagaskilyrði til að víkja frá útboðsskyldu hafi ekki verið fyrir hendi.

Eins og sakir standa gilda þjónustusamningar SÁÁ við ríkið einungis í einn mánuð í senn. Langtímasamningar hafa ekki verið í gildi frá árslokum 2011. Viðræður um nýja samninga hafa staðið yfir að undanförnu milli Sjúkratrygginga Íslands og SÁÁ en nokkuð ber enn í milli. Þá vinnur velferðarráðuneytið nú að stefnumótun um velferðarþjónustu, þ.m.t. þau verkefni sem samtökin sinna. Því má segja að nokkur óvissa ríki um rekstrarforsendur áfengis- og vímuefnameðferðar á vegum samtakanna. Að mati Ríkisendurskoðunar er erfitt fyrir SÁÁ að uppfylla ákvæði laga um opinber innkaup meðan þessi staða er uppi.

Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að ljúka stefnumótun um velferðarþjónustu eins fljótt og verða má og ákveða hvaða þjónusta verði keypt af SÁÁ. Jafnframt hvetur stofnunin Sjúkratryggingar Íslands til að ganga frá langtímasamningum við SÁÁ hið fyrsta. Loks telur stofnunin að SÁÁ eigi að bjóða út rekstur mötuneytis um leið og nýir samningar liggja fyrir.