Gera þarf nýjan samning um rekstur HSSA

Ríkisendurskoðun telur brýnt að heilbrigðisráðuneytið og Sveitarfélagið Hornafjörður semji að nýju um rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands (HSSA).Árið 2003 sömdu heilbrigðisráðuneytið og Sveitarfélagið Hornafjörður um að sveitarfélagið tæki að sér rekstur heilsugæslu- og öldrunarþjónustu í Austur-Skaftafellssýslu. Í skýrslunni Þjónustusamningur um Heilbrigðisstofnun Suðausturlands, sem kom út árið 2007, benti Ríkisendurskoðun á ýmislegt sem betur mætti fara í samningnum og framkvæmd hans. Gert var ráð fyrir að kanna viðbrögð við þessum ábendingum að þremur árum liðnum, þ.e. á þessu ári. Umræddur samningur rann út árið 2006 og hefur ekki verið endurnýjaður en þó er áfram unnið samkvæmt honum. Ríkisendurskoðun telur brýnt að aðilar gangi frá nýjum samningi hið fyrsta og mun ekki kanna viðbrögð við ábendingum áðurnefndrar skýrslu fyrr en það hefur verið gert.