Gera þarf þjónustusamninga við öll hjúkrunarheimili

Ríkisendurskoðun hvetur stjórnvöld til að gera þjónustusamninga við öll hjúkrunarheimili þar sem verð þjónustunnar verði skilgreint og skýrar kröfur gerðar um magn hennar og gæði. Þá telur stofnunin að greina þurfi betur en nú er gert hjúkrunar- og umönnunarþörf þeirra sem fá inni á heimilunum. Með samræmdu verklagi við færni- og heilsumat megi koma í veg fyrir að inn á heimilin leggist fólk sem önnur og ódýrari úrræði henta hugsanlega betur. Enn fremur þurfi að bæta skil heimilanna á rekstrarupplýsingum til stjórnvalda og úrvinnslu þeirra. Loks hvetur Ríkisendurskoðun stjórnvöld til að kanna kosti þess að færa málaflokkinn til sveitarfélaganna.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um rekstur og fjárhagsstöðu hjúkrunarheimila á síðasta ári og settar fram ýmsar ábendingar um úrbætur á stjórnun málaflokksins. Samtals voru 45 hjúkrunarheimili starfrækt í landinu árið 2013, þar af um helmingur á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin reka flest þessara heimila en hluti er rekinn af sjálfseignarstofnunum eða einkaaðilum og tvö af ríkinu. Í skýrslunni kemur fram að á árinu 2013 kostaði rekstur heimilanna meira en 23 milljarða króna. Tekjur þeirra voru að langstærstum hluta svokölluð daggjöld og húsnæðisgjald sem ríkið leggur þeim til en íbúar greiða hluta daggjaldsins í samræmi við reglur þar um. Framlög rekstraraðila og annarra námu um 4% af tekjum heimilanna.
Fram kemur í skýrslunni að á síðasta ári voru 32 hjúkrunarheimili rekin með halla en 13 skiluðu rekstrarafgangi. Samanlögð rekstrarafkoma heimilanna var neikvæð um 761 milljón króna. Bent er á að mönnun heimilanna hafi mikið að segja um afkomu þeirra en launakostnaður vegur að meðaltali um 76% af rekstrargjöldum. Þannig sé afkoma heimila með fátt starfsfólk miðað við fjölda íbúa (hjúkrunarrýma) yfirleitt betri en annarra heimila. Einnig kemur fram að þörf íbúa fyrir umönnun og hjúkrun (hjúkrunarþyngd) sé mjög mismunandi eftir heimilum. Að mati Ríkisendurskoðunar vekur þetta upp spurningar um hvernig staðið er að færni- og heilsumati vegna innlagna. Enn fremur er í skýrslunni bent á að þjónusta heimilanna við íbúa sé talsvert mismunandi. Minni heimilin bjóði almennt ekki upp á sérhæfða þjónustu eins og sjúkra- og iðjuþjálfun. Þá sé talsverður munur á húsnæði og öðrum aðbúnaði.
Ríkisendurskoðun telur að velferðarráðuneytið þurfi, í samvinnu við Embætti landlæknis, að greina betur en nú hjúkrunar- og umönnunarþörf þeirra sem fá inni á hjúkrunarheimilum. Með því að samræma verklag við færni- og heilsumat megi koma í veg fyrir að inn á heimilin leggist ein­staklingar sem vera má að önnur og ódýrari þjónustuúrræði henti betur. Fram kemur í skýrslunni að ráðuneytið hafi þegar hafið vinnu við slíka greiningu.
Ríkið hefur einungis gert þjónustusamninga við nokkur hjúkrunarheimili en stjórnvöld hafa þó sett fram lágmarks­kröfur til starfsemi þeirra. Að mati Ríkisendurskoðunar er nauðsynlegt að gerðir verði þjónustusamningar við öll heimilin þar sem m.a. komi fram á hvaða verði ríkið kaupir þjónustu þeirra og hvaða kröfur hún skuli uppfylla um magn og gæði.
Velferðarráðuneytið hefur um árabil safnað rekstrarupplýsingum frá heimilunum en að mati Ríkisendurskoðunar þarf að ganga betur eftir því að heimilin standi skil á slíkum upplýsingum og vinna frekar úr þeim þannig að þær nýtist sem best við ákvarðanatöku.
Loks hvetur Ríkisendurskoðun ráðuneytið til að kanna kosti þess að færa málaflokkinn til sveitarfélaganna sem bæru þá bæði fjárhagslega og rekstrarlega ábyrgð á starfseminni.