Greiðslur til meðferðarheimila vegna samningsslita byggi á skýrum reglum

Dæmi eru um að rekstraraðilar meðferðarheimila fyrir börn og unglinga hafi fengið sérstakar uppgjörsgreiðslur við samningsslit. Til þessa hafa slíkar greiðslur ekki átt stoð í skýrum reglum eða ákvæðum samninga. Ríkisendurskoðun finnur að þessu og bendir að auki á að uppgjörsgreiðslur verði að byggjast á málefnalegum rökum og vera gegnsæjar.Barnaverndarstofa hefur allt frá árinu 1995 samið við einkaaðila um rekstur meðferðarheimila fyrir börn og unglinga sem eiga við alvarlega hegðunarerfiðleika að stríða. Lengst af var lögð megináhersla á að rekstrar- og meðferðaraðilar byggju með fjölskyldum sínum undir sama þaki og skjólstæðingar þeirra. Einnig þótti kostur að heimilin væru starfrækt utan höfuðborgarsvæðisins. Flest urðu heimilin átta árið 2003 en eru nú einungis þrjú. Ekkert þeirra er fjölskyldurekið og hið nýjasta er rekið af ríkinu. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar Þjónustusamningar Barnaverndarstofu og lok þeirra kemur fram að meginástæða fækkunar heimilanna sé dvínandi spurn eftir þjónustu þeirra  vegna nýrra meðferðarúrræða og alvarlegra atburða sem þar hafi gerst.
Alls átta sinnum hefur Barnaverndastofa haft frumkvæði að því að þjónustusamningi við meðferðarheimili var slitið áður en gildistími hans rann út. Í skýrslunni kemur fram að við þessi samningsslit hafi stofan leitast við að gæta hagsmuna ríkisins og þeirra barna sem dvöldu á heimilunum en jafnframt sýna rekstraraðilunum sanngirni. Í nokkrum tilvikum megi jafnvel telja að stofan hafi sýnt þeim verulega þolinmæði og umburðarlyndi.
Fram kemur að þrisvar hafi verið samið við rekstraraðila um sérstaka uppgjörsgreiðslu eða bætur við samningsslit. Um er að ræða meðferðarheimilin að Torfastöðum í Biskupstungum, Árbót í Aðaldal og Götusmiðjuna. Samtals námu lokagreiðslur til rekstraraðila þessara heimila 84 milljónum króna að núvirði. Að mati Ríkisendurskoðunar orka þær um margt tvímælis. Samningum við rekstraraðila Árbótar- og Torfastaðaheimilanna var sagt upp á lögmætan hátt með tilskildum fyrirvara. Því áttu þeir ekki rétt á öðrum greiðslum en vegna umsamins uppsagnarfrests. Engu að síður samdi ráðuneyti félagsmála um viðbótargreiðslur til þeirra í andstöðu við Barnaverndarstofu. Greiðslan til rekstraraðila Torfastaðaheimilisins byggði á því að framlög til hans hefðu verið lægri en til sambærilegra heimila en greiðslan til rekstraraðila Árbótarheimilisins var rökstudd með vísan til skulda sem stofnað hefði verið til vegna uppbyggingar þess. Barnaverndarstofa gat rift samningi við rekstraraðila Götusmiðjunnar í samræmi við ákvæði hans og hefði rekstraraðilinn þá ekki átt rétt á viðbótargreiðslu. Þrátt fyrir þetta kaus stofan að semja um starfslok og greiða laun starfsmanna í tvo mánuði sem og sérstakt framlag vegna skulda rekstraraðilans.
Munur er á því hvernig fjárhæðir lokagreiðslna til annars vegar rekstraraðila Torfastaðaheimilisins og Götusmiðjunnar og hins vegar Árbótarheimilisins voru fundnar út. Greiðslur til rekstraraðila fyrrnefndu heimilanna tóku mið af útreikningum óháðra aðila en greiðslan til rekstraraðila Árbótarheimilisins var samningsatriði milli þeirra annars vegar og félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra hins vegar. Útreikningur Ríkisendurskoðunar leiðir í ljós að við samningsslit sátu rekstraraðilar Árbótarheimilisins ekki uppi með eftirstöðvar skulda sem stofnað hafði verið til vegna uppbyggingar þess. Því fær stofnunin ekki séð að málefnaleg rök hafi verið fyrir 30 milljón króna uppgjörsgreiðslu til þeirra.
Að mati Ríkisendurskoðunar þurfa stjórnvöld að taka afstöðu til þess hvort tími einkarekinna meðferðarheimila fyrir börn og unglinga sé hugsanlega liðinn vegna breyttra aðstæðna í samfélaginu og nýrra meðferðarúrræða. Verði niðurstaðan sú að áfram skuli samið við slík heimili þarf að tryggja að mögulegar greiðslur til þeirra vegna samningsslita séu gagnsæjar, málefnalegar, byggðar á skráðum reglum, samningum og raunverulegu uppgjöri. Ávallt þarf að ganga úr skugga um að uppsögn þjónustusamnings sé lögmæt áður en til hennar kemur svo ekki verði ágreiningur um það. Þá þarf velferðarráðuneytið að koma á sjálfstæðu ytra eftirliti með framkvæmd samninganna. Enn fremur verða ráðuneytið og Barnaverndarstofa að sporna gegn óeðlilegum afskiptum utanaðkomandi aðila, jafnt stjórnmálamanna sem annarra, að lausn mála. Slík afskipti grafa undan faglegum vinnubrögðum og draga úr tiltrú almennings á stjórnsýslunni.
Fram kemur að nokkrum heimilum hafi verið lokað vegna ófullnægjandi nýtingar. Einnig hafi starfsmenn heimilanna yfirleitt verið ófaglærðir. Ákveði stjórnvöld að halda áfram að semja við einkarekin heimili þarf að mati Ríkisendurskoðunar að setja reglur um lágmarksnýtingu vistrýma og fagmenntun starfsfólks.