Greinargerð um bótauppgjör við starfsmann utanríkisráðuneytisins

Utanríkisráðuneytið hefur breytt reglum um tryggingar búslóða starfsmanna sinna í kjölfar tjóns sem varð á búslóð sendiráðunautar við flutning hennar milli landa árið 2011. Ríkisendurskoðun telur að þessar breytingar séu til bóta.Í nýrri greinargerð Ríkisendurskoðunar er fjallað um bótauppgjör við starfsmann utanríkisráðuneytisins vegna tjóns á búslóð hans árið 2011. Ríkið kaupir að jafnaði ekki aðrar tryggingar en lögboðnar ábyrgðartryggingar og ber því sjálft áhættu þegar skyldutryggingum sleppir. Í samræmi við þessa meginreglu hefur utanríkisráðuneytið hingað til flutt búslóðir starfsmanna utanríkisþjónustunnar á sína eigin ábyrgð. Ráðuneytið hefur þó yfirleitt tryggt sig gegn minniháttar tjóni sem verða kann við flutning.

Búslóð sendiráðunautar við sendiráð Íslands í Washington og eiginkonu hans skemmdist mikið þegar verið var að flytja hana sjóleiðina milli landa í apríl 2011. Ráðuneytið keypti tryggingu vegna búslóðarinnar hjá Tryggingamiðstöðinni hf. fyrir samtals 5,3 milljónir króna. Hjónin töldu hins vegar að tjónið hefði numið samtals tæplega 87 milljónum króna. Skoðunarfyrirtæki sem mat tjónið fyrir Tryggingamiðstöðina taldi það nema samtals tæplega 81 milljón króna. Í nóvember 2011 tókst samkomulag milli aðila um að bætur til tjónþola skyldu nema rúmlega 78 milljónum króna. Þar af voru 74 milljónir króna greiddar úr ríkissjóði en Tryggingamiðstöðin greiddi 4 milljónir króna. Félagið greiddi einnig matskostnað og ýmsan annan umsýslukostnað á áfangastað að fjárhæð 1,3 milljónir króna.

Ríkisendurskoðun telur engan vafa leika á því að ríkissjóður bar ábyrgð á tjóninu og að ráðuneytinu bar að ganga til samninga við tjónþolanna um bætur. Stofnunin bendir á að skoðunarmenn sem störfuðu á vegum Tryggingamiðstövarinnar mátu tjónið ekki milliliðalaust á staðnum heldur af ljósmyndum og skriflegum gögnum. Þá hafi ekki reynst unnt að bera meint verðmæti búslóðarinnar saman við innbústryggingu tjónþolanna en slíkur samanburður kynni að hafa reynst gagnlegur við mat á tjóninu og samningagerðina í framhaldi af því.

Fram kemur í greinargerðinni að utanríkisráðuneytið hafi nú breytt reglum sínum um tryggingar búslóða og geymslu þeirra. Meðal annars tryggir ráðuneytið nú búslóðir fyrir hærri fjárhæðir en áður og sett hefur verið hámark á ábyrgð ríkisins (500 þús.kr. á hvern rúmmetra). Að mati Ríkisendurskoðunar eru hinar nýju reglur mjög til bóta þar sem þær kveða með skýrum hætti á um takmörkun á ábyrgð ríkisins.