Greinargerð um innflutning á heyrnartækjum og hlutum í þau á vegum Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands

By 1.10.2002 2002 No Comments

Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér greinargerð um innflutning heyrnartækja á vegum Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands (HTÍ) þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við störf fyrrverandi framkvæmdastjóra stofnunarinnar. Upphaf málsins má rekja til þess að við endurskoðun á bókhaldi stofnunarinnar fyrir árið 2000 vöktu núverandi stjórnendur hennar athygli Ríkisendurskoðunar á því að kaup og greiðslufyrirkomulag á vörum frá danska fyrirtækinu Dicton Høreteknik voru að ýmsu leyti óvenjuleg. Viðskiptin áttu sér stað í tíð fyrirverandi framkvæmdastjóra stofnunarinnar og telur Ríkisendurskoðun að með þeim hafi ákvæði ýmissa laga verið brotin. Málinu hefur verið vísað til ríkissaksóknara.

Við athugun kom í ljós að frá ársbyrjun 1997 til maíloka 2001 keypti HTÍ umtalsvert magn heyrnartækja af Dicton gegn fyrirframgreiðslu og án milligöngu Ríkiskaupa. Verðmæti umræddra tækja nemur um 34,1 milljónum íslenskra króna, á verðlagi hvers árs. Umræddar vörur bera hvorki toll né vörugjald skv. tollalögum en við innflutning þeirra ber að standa skil á virðisaukaskatti skv. lögum um virðisaukaskatt. Fyrirframgreiðslur voru inntar af hendi með tvennum hætti. Annars vegar tók fyrrverandi framkvæmdastjóri út erlenda mynt í reiðufé í ýmsum bankastofnunum inanlands og greiddi sjálfur fyrir tækin í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Danmörku. Hins vegar keypti fyrrverandi framkvæmdastjóri vörur hjá danska fyrirtækinu Widex og lét í skiptum fyrir heyrnartæki frá Dicton. Heyrnartækjunum var komið fyrir innan um aðrar vörur sem fluttar voru til landsins og höfðu tollayfirvöld ekki vitneskju um innflutning þeirra. Einnig eru dæmi þess að fyrrverandi framkvæmdastjóri hafi flutt tækin inn í handfarangri. Með þessu móti komst stofnunin hjá því að greiða virðisaukaskatt af vörunum. Vangreiddur virðisaukaskattur af innflutningi tækjanna virðist miðað við innkaupsverð þeirra geta numið tæplega 8,3 milljónum króna fyrir utan dráttarvexti.

Afhending heyrnartækja af hálfu Dicton hefur ekki verið í samræmi við greiðslur. Heildarskuld fyrirtækisins við HTÍ jafngildir liðlega 6,9 milljónum íslenskra króna miðað við gengisskráningu í janúarbyrjun 2002. Engir reikningar eða skuldaviðurkenningar af nokkru tagi hafa verið gefnar út vegna þessara viðskipta. Einnig eru upplýsingar um viðskiptin í bókhaldi stofnunarinnar ófullnægjandi. Hvorki öðrum starfsmönnum HTÍ né stjórn stofnunarinnar virðist hafa verið kunnugt um tilhögun þessara viðskipta.

Ríkisendurskoðun telur að fyrrverandi framkvæmdastjóri hafi með þessu háttalagi hvorki virt starfsskyldur sínar og ábyrgð sem forstöðumaður skv. lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins né ákvæði tollalaga nr. 55/1987, laga um virðisaukaskatt nr. 55/1998 og laga um bókhald nr. 156/1994, sbr. lög nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins.