Háar sektir vegna „hvítflibbabrota‘‘ sjaldan greiddar

Vegna svars dómsmála- og mannréttindaráðherra við fyrirspurn á Alþingi um fésektir og fjölmiðlaumræðu í kjölfar þess, vill Ríkisendurskoðun koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.Samkvæmt íslenskum lögum eru refsingar tvenns konar: fésekt og fangelsi. Geti maður sem dæmdur er til sektar ekki greitt hana þarf hann að afplána svokallaða vararefsingu í formi fangelsisvistar.
Eitt meginmarkmið refsinga er að koma í veg fyrir afbrot, svokölluð varnaðaráhrif. Til að efla varnaðaráhrif refsinga við skattsvikum samþykkti Alþingi árið 1995 lög sem m.a. leiddu til þess að sektir vegna slíkra brota hækkuðu verulega. Fjórum árum síðar samþykkti Alþingi önnur lög sem m.a. veittu heimild til að breyta vararefsingu sekta úr fangelsi í svokallaða samfélagsþjónustu. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar Eftirlit með innheimtu sekta og sakarkostnaðar, sem kom út í júní 2009, er bent á að setning síðarnefndu laganna hafi í raun unnið gegn tilgangi hinna fyrrnefndu. Opnuð hafi verið leið til að breyta háum sektum í samfélagsþjónustu og þar með í raun milda refsingar eftir á. Hugsanlegt sé að þetta hafi dregið úr þeim varnaðaráhrifum sem hertum refsingum fyrir skattalagabrot var ætlað að hafa.
Undanfarin ár hefur þróunin orðið sú að vararefsing hárra sekta vegna svokallaðra hvítflibbabrota er nær ávallt afplánuð með samfélagsþjónustu. Í skýrslunni kemur þannig fram að um 81% sekta fyrir skattalagabrot sem voru 8 m.kr. eða hærri á tímabilinu 2000–2006 voru gerð upp með þessum hætti. Einnig er bent á að bið eftir því að afplána vararefsingu sé löng vegna skorts á rými í fangelsum landsins. Að mati Ríkisendurskoðunar er hætta á því að fullnusta refsinga hér á landi sé um of farin að ráðast af aðstöðu eða aðstöðuleysi Fangelsismálastofnunar, í stað alvarleika brota og þeirra varnaðaráhrifa sem refsingum er ætlað að hafa. Þá telur Ríkisendurskoðun að dómsmála- og mannréttindaráðuneytið eigi að láta gera úttekt á kostum þess og göllum að dómstólar dæmi brotamenn til samfélagsþjónustu í stað Fangelsismálastofnunar, enda er það dómstóla að ákveða refsingar. Á það hefur verið bent að samfélagsþjónusta sé í eðli sínu refsing þótt hún sé í íslenskum lögum skilgreind sem svokallað fullnustuúrræði.
Á tímabilinu júlí 2008 til mars 2010 bárust Fangelsismálastofnun mál 44 einstaklinga sem dæmdir höfðu verið til að greiða sektir sem voru 9 m.kr. eða hærri. Samtals nam fjárhæð þessara sekta liðlega 1,3 ma.kr. Samkvæmt upplýsingum sem Ríkisendurskoðun hefur aflað eru líkur á að einungis lítill hluti þeirra verði greiddur. Jafnframt er ólíklegt að þeir einstaklingar í þessum hópi sem ekki uppfylla skilyrði um samfélagsþjónustu geti hafið afplánun vararefsingar í fangelsi á næstu 12 mánuðum. Í þessu sambandi má nefna að í skýrslu Ríkis­endur­skoðunar Skipulag og úrræði í fangelsismálum, sem kom út í mars sl., er lögð áhersla á mikilvægi þess að byggt verði nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu, m.a. til að unnt sé að mæta þessum vanda
Menn sem dæmdir hafa verið til sektar eiga ekki rétt á að afplána hana með samfélagsþjónustu geti þeir greitt. Úrræði yfirvalda til að kanna fjárhag sektarþola eru hins vegar takmörkuð. Sterkur grunur leikur á að fyrir hafi komið að menn sem gátu greitt sekt hafi fengið að afplána hana með samfélagsþjónustu. Í fyrrnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit með innheimtu sekta og sakarkostnaðar kemur fram að efla þurfi úrræði yfirvalda til að kanna fjárhagsstöðu sektarþola. Einnig þurfi að veita þeim öflugri lagaleg úrræði til þess að hindra að eignum eða fjármunum sé skotið undan þegar sakfelling liggur fyrir og háar sektir blasa við. Loks var bent á að athuga þyrfti hvort heimila ætti kyrrsetningu eigna á rannsóknarstigi þegar veruleg hætta er á undanskotum og sekt þykir nokkuð óyggjandi. Við þessari ábendingu var brugðist með setningu laga nr. 23/2010 þar sem kyrrsetning eigna er m.a. heimiluð.