Hafa brugðist með fullnægjandi hætti við ábendingum um innkaupamál

Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Ríkiskaup hafa brugðist með fullnægjandi hætti við þremur ábendingum Ríkisendurskoðunar frá árinu 2010 um innkaupamál.Árið 2010 gerði Ríkisendurskoðun úttekt á viðskiptum ríkisstofnana við úrtak 800 birgja í því skyni að kanna hvort lögum um opinber innkaup hefði verið fylgt. Í ljós komu ýmsir misbrestir. Nokkur dæmi voru um að útboðsskylda hefði ekki verið virt og í mörgum tilvikum gerðu stofnanir ekki formlegan verðsamanburð milli sem flestra fyrirtækja eins og skylt er að gera ef fjárhæðir eru undir viðmiðunarmörkum útboðsskyldu. Vegna þessa beindi Ríkisendurskoðun þremur ábendingum til fjármálaráðuneytisins (nú fjármála- og efnahagsráðuneyti) og Ríkiskaupa:

  • Ráðuneytið var hvatt til að koma á fót miðlægum auglýsingavef þar sem kaupendur gætu óskað eftir tilboðum þegar fjárhæðir væru undir viðmiðunarmörkum útboðsskyldu og ekki væri í gildi svokallaður rammasamningur um viðkomandi vöru eða þjónustu. Ríkiskaup gera slíka samninga við fyrirtæki á grundvelli útboða en þeir fela í sér sérstök afsláttarkjör til ríkisstofnana.
  • Lagt var til að mótaður yrði gátlisti sem stofnanir gætu notað við verðkannanir þegar fjárhæðir væru undir viðmiðunarmörkum útboðsskyldu.
  • Ríkiskaup voru hvött til að fjölga tegundum rammasamninga eins og kostur væri.

Nú þremur árum síðar telur Ríkisendurskoðun að brugðist hafi verið með fullnægjandi hætti við öllum þremur ábendingunum. Að vísu hefur miðlægum auglýsingavef enn ekki verið komið á fót en vinna er hafin við að greina þær þarfir og kröfur sem setja þarf fram vegna uppsetningar slíks vefjar og er stefnt að því að hann verði kominn til prófunar fyrir árslok 2013. Fyrir liggur sérstakt rafrænt eyðublað sem stofnanir geta notað við verðkannanir og flokkum rammasamninga hefur fjölgað um 17 frá árinu 2009. Aðkomu Ríkisendurskoðunar að málinu er lokið.