Háskóli Íslands brugðist við ábendingum um verktöku akademískra starfsmanna

Ríkisendurkoðun telur að Háskóli Íslands hafi brugðist með fullnægjandi hætti við ábendingum stofnunarinnar frá 2010 um verktöku fastráðinna akademískra starfsmanna.Í byrjun árs 2010 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem athygli var beint að allháum verktaktagreiðslum Háskóla Íslands til nokkurra fastráðinna akademískra starfsmanna sinna og félaga sem þeir áttu eða tengdust. Greiðslurnar voru fyrir kennslu sem skilgreind var sem endursmenntun. Að mati Ríkisendurskoðunar báru þær ýmis merki svokallaðrar „gerviverktöku“ en hún felst í því að einstaklingur þiggur verktakagreiðslur fyrir störf sem eru í eðli sínu venjuleg launavinnna. Umræddir starfsmenn höfðu endurgjaldslausa vinnuaðstöðu við Háskólann, nutu þar endurgjaldslausrar aðstoðar annarra starfsmanna hans og höfðu aðgang að öllum nauðsynlegum búnaði. Fjárhagsleg ábyrgð verktakanna var því takmörkuð. Þá var umrædd kennsla ekki auglýst og stóð því ekki öllum þeim til boða sem höfðu getu og vilja til að sinna henni. Í skýrslunni beindi Ríkisendurskoðun þremur ábendingum til Háskólans: Í fyrsta lagi bæri skólanum að fylgja reglum um mun á verktakavinnu og launavinnu, í öðru lagi þyrfti að tryggja gagnsæi og jafnræði þegar kennarar væru ráðnir í umfangsmikil störf og í þriðja lagi þyrfti að herða á reglum skólans um aukastörf akdemískra starfsmanna („helgun“ í starfi).

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar hefur Háskólinn brugðist með fullnægjandi hætti við öllum þessum ábendingum. Reglum hefur verið breytt á þann veg að fastráðnir starfsmenn skólans geta ekki jafnframt verið verktakar við hann. Þá er skólanum nú óheimilt að kaupa þjónustu af starfsmönnum á starfssviði þeirra eða af félögum sem þeir eða fjölskyldumeðlimir þeirra eiga verulegan hlut í. Enn fremur kveða reglur skólans nú á um að bjóða skuli út verktakavinnu og innkaup sem fara umfram tilgreind fjárhæðarmörk. Loks eru nú ákvæði í reglum skólans sem eiga að tryggja að fastráðnir starfsmenn sem vinna á vegum stofnana eða fyrirtækja í eigu skólans uppfylli starfsskyldur sínar í aðalstarfi. Aðkomu Ríkisendurskoðunar að umræddum þætti í starfsemi Háskóla Íslands er þar með lokið.