Háskóli Íslands. Stjórnsýsluúttekt

By 20.04.2005 2005 No Comments

Háskóli Íslands er tiltölulega ódýr í rekstri miðað við sambærilega evrópska háskóla og árangur hans á mörgum sviðum kennslu og rannsókna er sömuleiðis ágætur. Ljóst er hins vegar að möguleikar hans til að þróast sem öflugur alþjóðlegur rannsóknarháskóli ráðast að verulegu leyti af því hvaða stefna í uppbyggingu og stjórnun verður valin á komandi árum.
Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Háskóla Íslands er vakin athygli á þeirri grósku sem einkennt hefur starfsemi skólans á undanförnum árum. Líkt og í flestum vestrænum háskólum hefur nemendum fjölgað verulega og mikil áhersla verið lögð á að efla framhaldsnám og rannsóknir. Allt þetta hefur leitt til umtalsverðs kostnaðarauka sem annars vegar hefur verið mætt með síauknum framlögum ríkisins til kennslu og hins vegar með hagræðingu í starfseminni. Fé til rannsókna hefur hins vegar nánast staðið í stað að raunvirði sem kann að hafa áhrif á möguleika skólans til að þróast áfram sem öflugur rannsóknarháskóli sem stenst alþjóðlegan samanburð.

Þó að útgjöld Háskólans hafi aukist talsvert síðustu ár hlýtur hann að teljast fremur ódýr í rekstri miðað við sambærilega háskóla í Evrópu. Þetta kemur í ljós bæði þegar bornar eru saman tekjur þessara skóla á hvern skráðan eða virkan nemanda og fjöldi skráðra eða virkra nemenda á hvern starfsmann. Þessa niðurstöðu má m.a. skýra með skilvirku starfi Háskóla Íslands, því að framhaldsnám við skólann er ennþá tiltölulega smátt í sniðum og mörgum stundakennurum. Reyndar liggur líka fyrir að Íslendingar hafa varið hlutfallslega minna fé til háskóla sinna en aðrar Norðurlandaþjóðir þó að bilið þar á milli sé óðum að minnka.

Þrátt fyrir að Háskóli Íslands sé ódýr í rekstri hefur hann náð ágætum árangri á mörgum sviðum, t.d. þegar horft er til fjölda útskrifaðra nemenda í grunn- og meistaranámi. Þá sýnir alþjóðlegur samanburður að akademískir starfsmenn skólans í raun- og heilbrigðisvísindum eru iðnir við að birtra greinar í ritrýndum, erlendum tímaritum. Að lokum má nefna að doktorsnemum hefur fjölgað verulega eða úr 36 árið 2000 í 107 árið 2004. Sem vænta má er þó langt í að slíkt nám beri sýnilegan ávöxt sem eftir er tekið. Árið 2003 útskrifaði skólinn 9 doktora en til að ná meðaltali norrænna háskóla hefði hann þurft að útskrifa 64.

Ljóst er að staða Háskóla Íslands hefur breyst verulega á síðustu árum og er hann nú farinn að keppa við aðra innlenda háskóla um fjármagn, nemendur og kennara. Þá veldur ört stækkandi nemendahópur vissum áhyggjum enda þrengir hann verulega að fjárhagsstöðu skólans um leið og metnaðarfullar hugmyndir um framhaldsnám og rannsóknir kalla á aukið fé og fleira starfsfólk. Nauðsynlegt virðist að huga að því hvernig skólinn eigi að bregðast við þessum nýju aðstæðum.

Að mati Ríkisendurskoðunar á Háskóli Íslands nokkurra kosta völ og þurfa þeir ekki að útiloka hver annan. Í fyrsta lagi getur skólinn reynt að laga starfsemi sína að núverandi fjárhagsstöðu, t.d. með því að takmarka fjölda nemenda við það fé sem hann fær greitt fyrir og fara sér hægar við að byggja upp framhaldsnám og rannsóknarstarfsemi. Annar möguleiki er að reyna enn frekar að hemja kostnað og hagræða í rekstri, t.d. með því að draga úr kennslu tiltekinna námsgreina eða leggja þær hreinlega af eða með því að takmarka aðgangsheimildir stúdenta að greinum enn meir en orðið er og auka kröfur til þeirra um námsframvindu. Í þriðja lagi þarf að skoða hvort unnt sé að auka tekjur Háskólans, annaðhvort með meiri fjárveitingum úr ríkissjóði eða með skólagjöldum og auknum styrkjum, og halda áfram uppbyggingarstarfi síðustu ára. Þar hafa löggjafar- og framkvæmdarvaldið vitaskuld úrslitaáhrif.

Ríkisendurskoðun telur brýnt að Háskóli Íslands móti sem fyrst í samvinnu við löggjafar- og framkvæmdavaldið skýra stefnu um framtíðarþróun skólans, verkefni hans og markmið í núverandi og komandi samkeppnisumhverfi. Í því samhengi þarf að taka afstöðu til ýmissa mikilvægra spurninga, svo sem um rekstrarform skólans og stjórnskipulag, væntanlegar fjárveitingar til kennslu og rannsókna, hugsanlegra skólagjalda og aðgangstakmarkana í nám. Að lokum telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að farið verði yfir verkaskiptingu miðlægrar stjórnsýslu skólans, fjármálastýring hans verði styrkt og honum verði veitt meiri ábyrgð á launamálum starfsmanna en hingað til.