Háskóli Íslands þarf að hafa virkari afskipti af starfsemi Raunvísindastofnunar

Stjórnendur háskólans þurfa að taka meiri þátt en hingað til í gerð og eftirfylgni rekstraráætlana Raunvísindastofnunar. Þá þarf mennta- og menningarmálaráðuneytið að haga samskiptum sínum við stofnunina þannig að forræði háskólans yfir henni sé virt.Raunvísindastofnun er hluti af Háskóla Íslands og skiptist í tvær undirstofnanir: Jarðvísindastofnun og Eðlis-, efna- og stærðfræðistofnun. Yfir Raunvísindastofnun er stjórn og undir hana heyra fram­kvæmda­stjóri og skrifstofa. Jafnframt hefur hvor undirstofnun sína eigin stjórn. Samkvæmt lögum ber forseti verkfræði- og náttúrvísindasviðs háskólans ábyrgð á fjár- og starfsmannamálum Raunvísindastofnunar.
Í nýrri skýrslu bendir Ríkisendurskoðun á að háskólinn þurfi að hafa virkari afskipti en hingað til af starfsemi Raunvísindastofnunar og betra eftirlit með henni. Meðal annars þurfi stjórnendur háskólans að taka meiri þátt í gerð rekstraráætlana stofnunarinnar og tryggja að eftir þeim sé farið en halli hefur verið á rekstrinum undanfarin ár. Þá ber að mati Ríkisendurskoðunar að kanna hvort rétt sé að færa fjárveitingu til Raunvísindastofnunar undir háskólann en stofnunin er nú sjálfstæður liður í fjárlögum.
Í skýrslunni kemur fram að samskipti mennta- og menningarmálaráðuneytisins við Raunvísindastofnun beri vott um að það líti ýmist á hana sem sjálfstæða ríkisstofnun eða hluta af Háskóla Íslands. Ríkisendurskoðun telur að ráðuneytið eigi að haga samskiptum sínum við stofnunina með þeim hætti að forræði háskólans yfir henni sé virt.
Ríkisendurskoðun telur að einfalda eigi skipulag Raunvísindastofnunar þannig að yfir henni verði aðeins ein stjórn. Þá telur Ríkisendurskoðun að setja þurfi skýrar verklagsreglur um ýmsa þætti í rekstri Raunvísindastofnunar og að hún þurfi að bæta umsýslu sína með styrkjum og rannsóknum.
Tekið skal fram að úttekt Ríkisendurskoðunar laut eingöngu að stjórnun og rekstri Raunvísindastofnunar en ekki að faglegum þáttum, s.s. gæðum og árangri rannsókna sem stundaðar eru á hennar vegum.