Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi. Stjórnsýsluúttekt

By 31.08.2005 2005 No Comments

Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi er ekki frábrugðin öðrum sambærilegum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni þegar horft er til skilvirkni þeirra og þess ráðstöfunarfjár á íbúa sem þær fá til að sinna hlutverki sínu. Þá hefur stjórnendum stofnunarinnar tekist að laga starfsemina að þeim fjárhagsramma sem henni er settur og breyttum aðstæðum heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.
Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi var gerð að beiðni stjórnenda stofnunarinnar sem telja ekki nægilega skýrt samband milli fjárframlaga til hennar og þess sem ætlast er til af henni. Stofnunin sé vanfjármögnuð og því þurfi að auka framlög til hennar.

Í úttekt Ríkisendurskoðunar var Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi borin saman við þrjár sambærilegar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og eina sem er bæði mun stærri og sinnir fjölbreyttari verkefnum. Fram kemur að starfsemi hennar er álíka skilvirk og starfsemi viðmiðunarstofnana af svipaðri stærð. Til að fá enn nákvæmari mynd af þessu þyrftu stofnanirnar þó að skipta kostnaði milli starfsemisþátta með samræmdum hætti og greina sérstakar aðstæður sem draga úr mældri skilvirkni. Úttektin sýnir einnig að utanaðkomandi þjónusta skýrir ekki mun á heildarkostnaði íbúa einstakra þjónustusvæða.

Árið 2004 var reglubundinn rekstur Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi nánast í jafnvægi eftir hallarekstur undangenginna ára. Stjórnendum hefur þannig tekist að laga starfsemina að þeim fjárhagsramma sem þeim er settur. Auk þess virðast þeir fá mikið út úr þeim fjármunum sem stofnunin fær til ráðstöfunar. Þegar skoðuð voru opinber framlög til þeirra stofnana sem hugað var að út frá þeim íbúafjölda sem þær þjóna kom fram umtalsverður munur milli stofnana sem ekki verður skýrður með efnislegum aðstæðum. Ekki virðist þó liggja beint við að Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi eigi að fá leiðréttingu umfram ýmsar aðrar sambærilegar stofnanir. Áður en slík leiðrétting er gerð þarf að endurskoða forsendur fjárveitinga til hþessara eilbrigðisstofnana svo að tryggja megi sem best jöfnuð milli þeirra.

Vel hefur gengið að laga starfsemi Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi að breyttum aðstæðum heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og þar með breyttri verkefnasamsetningu. Kraftar starfsfólks nýtast vel, umframhúsnæði hefur verið leigt undir ýmsa heilsutengda starfsemi og framboð stofnunarinnar á sérfræðiþjónustu hefur aukist, ekki síst vegna samvinnu við stærri sjúkrahús. Almennt hafa far- og fjarlækningar hins vegar ekki verið efldar á heildstæðan hátt á landsbyggðinni, eins og gert var ráð fyrir, til að mæta þeim mikla mun sem er á aðgengi íbúa landsbyggðarinnar og þéttbýlis að sérfræðilæknum. Þess má geta að íbúar þeirra svæða sem horft var til nota einungis um þriðjung þeirrar sérfræðiþjónustu sem íbúar höfuðborgarsvæðisins nota.

Í úttekt sinni bendir Ríkisendurskoðun á ýmsa kosti þess að heilbrigðisþjónustunni sé fremur stýrt á miðlægan hátt en á sveitarstjórnarstigi. Slíkt veiti bæði betri yfirsýn um málaflokkinn í heild og auðveldi stöðlun, svo sem að veita sambærilega þjónustu alls staðar á landinu. Ríkisendurskoðun leggur þó áherslu á að miðlæg stýring megi ekki koma í veg fyrir að einstakar stofnanir geti lagað þjónustu sína að aðstæðum og þörfum hvers staðar.