Heildarlög um Umhverfisstofnun skýra ábyrgð og verkefni

Ríkisendurskoðun ítrekar ekki ábendingu sína til umhverfis- og auðlindaráðuneytis frá árinu 2014 um að það þurfi að efla eftirlit með Umhverfisstofnun og tryggja skýra skiptingu ábyrgðar milli sín og stofnunarinnar.

Þetta kemur fram í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar um Sorpbrennslur með undanþágu frá tilskipun ESB.

Frumvarp til heildarlaga um Umhverfisstofnun liggur nú fyrir Alþingi, þar sem ábyrgð og verkefni stofnunarinnar eru skýrð. Þá eru í undirbúningi frumvörp til breytinga á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um mat á umhverfisáhrifum sem ráðgert er að feli í sér heimildir Umhverfisstofnunar til að beita stjórnvaldssektum. Loks hafa verkferlar um rekstrar- og verkefnaáætlanir ríkisstofnana breyst með gildistöku laga um opinber fjármál þar sem eftirlit ráðuneyta með ríkisstofnunum var eflt. Ríkisendurskoðun telur að með fyrirhuguðum lagabreytingum og breyttu verklagi hafi ráðuneytið komið til móts við ábendingu stofnunarinnar frá árinu 2014.

Í eftirfylgniskýrslu sinni vekur Ríkisendurskoðun engu að síður athygli á því að ráðherra hefur enn ekki gefið út almenna stefnu um meðhöndlun úrgangs sem gilda á til 12 ára, líkt og lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs kveða á um. Að mati stofnunarinnar þarf að ljúka sem fyrst slíkri stefnumörkun sem feli í sér tímasetta aðgerðaáætlun og áætlun um nauðsynleg fjárframlög ríkisins vegna úrgangsmála.