Helstu niðurstöður úttektar á skuldbindandi samningum ráðuneytanna

Í samtals átta skýrslum hefur Ríkisendurskoðun hvatt ráðuneytin til að bæta umsýslu og eftirlit með skuldbindandi samningum við samtök, einkaaðila og sveitarfélög. Viðbrögð ráðuneytanna hafa almennt verið jákvæð. Að undanförnu hefur Ríkisendurskoðun tekið út samninga sem ráðuneytin hafa gert við samtök, einkaaðila og sveitarfélög um að þessir aðilar taki að sér verkefni gegn greiðslum úr ríkissjóði. Um er að ræða samninga sem taldir eru upp í frumvarpi til fjárlaga á hverju ári og þar skilgreindir sem „skuldbindandi“. Alls voru 179 slíkir samningar virkir árið 2011, þ.e. greitt var samkvæmt þeim. Áætlaður kostnaður við þá var samtals tæplega 40 milljarðar króna á því ári. Um 82% hans var vegna samninga þriggja ráðuneyta: sjávarútvegs- og landbúnaðar-, velferðar- og mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Ríkisendurskoðun hefur birt sérstaka skýrslu fyrir hvert ráðuneyti, samtals átta skýrslur. Sú fyrsta var birt í desember 2011 en sú síðasta í byrjun mars sl. Í þessum skýrslum er bent á ýmislegt sem betur má fara í samningamálum ráðuneytanna en fjöldi ábendinga er í takt við fjölda samninga sem ráðuneytin hafa á sínum vegum. Flestar ábendingar eru í skýrslum um samningamál mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis en fæstar í skýrslum um samningamál umhverfisráðuneytis og forsætisráðuneytis. Í síðastnefndu skýrslunni er raunar engin ábending enda hefur forsætisráðuneyti ekki lengur neinn skuldbindandi samning á sínum vegum. Algengustu ábendingar skýrslnanna eru eftirfarandi:

  • Tengja þarf greiðslur við markmið, frammistöðu eða framvindu
  • Tryggja þarf að eftirlit sé í samræmi við ákvæði
  • Samræma þarf ákvæði skuldbindandi samninga
  • Gera á úttektir á samningum undir lok samningstíma
  • Ljúka þarf gerð verklagsreglna vegna samningamála / skjalfesta þarf reglurnar
  • Móta þarf reglur um úttektir og endurskoðun á samningstíma

Viðbrögð ráðuneytanna við þessum ábendingum hafa almennt verið jákvæð og vinna mörg þeirra nú þegar að því að bæta skuldbindandi samninga sína og framkvæmd þeirra. Ríkisendurskoðun fyrirhugar að vinna áfram með samninga ríkisins á næstu misserum en ekki hefur enn verið skilgreint með hvaða hætti það verður.