Ríkisendurskoðun hefur eftirlit með fjármálum stjórnmálasamtaka og frambjóðenda samkvæmt lögum nr. 162/2006.

Lögin skylda stjórnmálasamtök til að skila samstæðureikningi, þ.e. ársreikningi fyrir allar einingar sem undir þau falla, til Ríkisendurskoðunar sem í kjölfarið skal birta útdrátt úr honum. Þá skylda þau frambjóðendur í persónukjöri vegna sveitarstjórnar- eða alþingiskosninga til að skila stofnuninni uppgjöri um tekjur og kostnað vegna kosningabaráttu. Stofnunin skal síðan birta útdrátt úr slíkum uppgjörum. Reikningur stjórnmálasamtaka skal vera endurskoðaður og áritaður af endurskoðanda en uppgjör frambjóðanda skal vera áritað af endurskoðanda eða bókhaldsfróðum skoðunarmanni.

Leiðbeiningar um reikningshald stjórnmálasamtaka

Leiðbeiningar um uppgjör og upplýsingaskyldu frambjóðenda í persónukjöri

Ríkisendurskoðun fer yfir reikninga stjórnmálasamtaka og frambjóðenda sem stofnuninni berast og athugar, eftir því sem tök eru á, hvort þeir séu í samræmi við ákvæði laganna. Meðal annars kannar hún hvort lögaðilar, sem styrkja stjórnmálasamtök, séu tengdir aðilar í skilningi 5. tl. 2. gr. laga nr. 162/2006. Einnig leitast Ríkisendurskoðun við að upplýsa forsvarsmenn stjórnmálasamtaka og frambjóðendur um skyldur þeirra samkvæmt lögunum.

Stjórnmálasamtökum er óheimilt að taka við hærra framlagi frá lögaðila eða einstaklingi en sem nemur 550 þúsund krónum. Þó má stofnframlag til stjórnmálasamtaka vera allt að 1.100 þúsund krónur.

Einstaklingum er óheimilt að taka við hærra framlagi frá lögaðila eða einstaklingi en sem nemur 400 þúsund krónum.

Í reikningi stjórnmálasamtaka og uppgjöri frambjóðanda skal tilgreina nöfn allra lögaðila sem veitt hafa framlög sem og nöfn þeirra einstaklinga sem veitt hafa framlög yfir 300 þúsund krónum. Þeir framjóðendur sem hafa minni kostnað af kosningabaráttu en sem nemur 550 þúsund krónum þurfa ekki að skila uppgjöri til stofnunarinnar heldur nægir þeim að skila yfirlýsingu um að kostnaður hafi verið undir fyrrnefndu marki.

Skil stjórnmálasamtaka á ársreikningum til Ríkisendurskoðunar

Forráðamönnum stjórnmálasamtaka ber að skila ársreikningum til Ríkisendurskoðunar fyrir 1. október ár hvert, sbr. lög nr. 162/2006. Frá og með árinu 2020 skal skila ársreikningi fyrir 1. nóvember ár hvert. Ríkisendurskoðun mun á árinu 2019 birta útdrátt úr ársreikningi stjórnmálasamtaka en frá og með árinu 2020 mun Ríkisendurskoðun birta samþykkta ársreikninga.

Rafræn skil

Stjórnmálasamtök sem vilja skila ársreikningi rafrænt þurfa fyrst að hlaða niður eyðublaði og fylla út. Um er að ræða sérstakt fylgibréf sem senda þarf ásamt innskönnuðum ársreikningi. Athugið að nauðsynlegt er að hlaða eyðublaðinu niður af vefnum (ekki opna í vafra). Opnið eyðublaðið svo í Adobe Reader 8.1 eða nýrri útgáfu. Nánar tiltekið:

  • Farið með bendilinn yfir hlekkinn ,,Eyðublað“ hér neðan og hægri smellið. Veljið „Save Target as / Vista tengil sem / Save Link as“. Vistið skjalið í tölvunni. (Til að fá hægri smell hjá Mac-notendum getur þurft að halda niðri Ctrl-takkanum um leið og smellt er).
  • Finnið svo skjalið sem var vistað. Hægrismellið á skjalið og veljið „Open with Adobe Reader“. Fyllið út eyðublaðið og vistið það í tölvunni.
  • Smellið síðan á hnappinn netskil hér að neðan til að skila rafrænt. Innskannaður ársreikningur er sendur sem viðhengi með útfylltu eyðublaði.

Ath. að gert er ráð fyrir að aðilar noti Íslykil eða rafræn skilríki til auðkenningar.
Eyðublað – fylgibréf með ársreikningi

Skil á pappír

Kjósi stjórnmálasamtök að skila ársreikningi á pappír skal leggja reikninginn í umslag af stærðinni A4 og rita „Ríkisendurskoðun – Bríetartún 7 – 105 Reykjavík“ utan á það.

Öll birt gögn er varða fjármál tengd stjórnmálastarfsemi