Eftirlit með tekjum ríkisins, samkvæmt 6. gr. a laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, felur í sér að fylgjast með þeim leiðum sem ríkið hefur til að afla tekna og innheimta gjöld og kanna hvort forsendur þeirra séu réttar, einnig að hafa eftirlit með hvort forsendur afskrifta hins opinbera séu réttar.

Eitt af meginhlutverkum ríkisendurskoðanda er að hafa eftirlit með tekjum ríkisins. Fjárhagsendurskoðun og stjórnsýsluendurskoðun snýr að mestu að eftirliti með því hvernig ríkisfé er nýtt en einnig þarf að huga að hvort skattar og gjöld skili sér til þeirra ríkisaðila eða opinbera hlutafélaga sem við á.

Eftirlit með tekjum ríkisins felst í að yfirfara forsendur álagningar opinberra gjalda og annarra skatta, endurskoða og kanna forsendur rekstrartekna stofnana, hafa eftirlit með því að rekstrartekjur séu innheimtar í samræmi við lög og fylgjast með innheimtu opinberra gjalda og skatta. Eftirlit með tekjuöflunarleiðum hins opinbera mun beinast að álagningakerfum og að þau virki í samræmi við lög, eins og til er ætlast. Ríkisendurskoðandi mun ekki taka einstaka skattákvarðanir til endurmats.

Þá koma einnig upp þær aðstæður að opinberir aðila og opinber hlutafélög þurfa að afskrifa kröfur og fá því ekki samsvarandi tekjur. Því er fylgst með forsendum afskrifta skattkrafna, álagningar opinberra gjalda og annarra skatta og metið hvort þær séu ekki réttmætar.