Stjórnsýsluendurskoðun felur í sér mat á frammistöðu þeirra sem ríkisendurskoðandi hefur eftirlit með, samkvæmt 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Sérstaklega er horft til meðferðar og nýtingar ríkisfjár, hagkvæmni og skilvirkni hjá hinu opinbera og hvort framlög ríkisins skili tilætluðum árangri.

Í lýðræðisríkjum þurfa stjórnvöld að svara fyrir og axla ábyrgð á athöfnum sínum gagnvart löggjafa og almenningi. Til að þetta sé mögulegt þurfa að liggja fyrir upplýsingar um starfsemi, frammistöðu og árangur stjórnvalda á hverjum tíma. Stjórnsýsluendurskoðun aflar slíkra upplýsinga og setur fram í skýrslu. Slík endurskoðun er meðal meginverkefna ríkisendurskoðana hvarvetna í heiminum og er mikilvægur þáttur í eftirliti löggjafans með framkvæmdarvaldinu. Ríkisendurskoðun hagar stjórnsýsluendurskoðun sinni í samræmi við lög um embættið. Einnig hafa alþjóðasamtök ríkisendurskoðana (INTOSAI) mótað ítarlega staðla um stjórnsýsluendurskoðun. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá verkferla stjórnsýsluúttekta.


Stjórnsýsluendurskoðun er í raun frammistöðumat. Í henni felst almenn greining á því hvernig ráðuneyti, stofnanir og aðrir opinberir aðilar sinna lögbundnum verkefnum. Mat á frammistöðu getur tekið til hagsýni, þ.e. til verðs og gæða þeirra aðfanga sem þarf til viðkomandi starfsemi, skilvirkni, þ.e. hvort aðföng séu nýtt með þeim hætti að mesta mögulega magn afurða fáist, eða árangurs, þ.e. hvort eða að hvaða leyti markmið starfseminnar hafa náðst (sjá einnig 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga og lögskýringargögn).

Eitt af markmiðum stjórnsýsluúttekta er að setja fram tillögur til úrbóta. Þar er iðulega horft til breytinga á skipulagi, stjórnun og starfsaðferðum þeirra sem sem tengjast viðfangsefni úttektar, hvort sem um er að ræða ráðuneyti, stofnanir eða aðra. Þegar stjórnsýsluúttekt er lokið er hún kynnt fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og í kjölfarið birt opinberlega.

Samkvæmt 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda getur embættið gert stjórnsýsluúttektir hjá öllum þeim aðilum sem fjármagna starfsemi sína með ríkisfé, ríkið á að hálfu eða meira eða njóta framlaga úr ríkissjóði vegna þjónustu sem þeir veita. Nokkur hluti úttektanna er jafnan saminn að beiðni Alþingis, einstakra ráðuneyta eða ríkisstofnana. Aðrar eru unnar að frumkvæði Ríkisendurskoðunar og viðfangsefnin þá m.a. valin út frá fjárhagslegu umfangi þeirra, áhættumati, svigrúmi til úrbóta og fyrri úttektum stofnunarinnar. Nánari útlistun á verkefnavali, undirbúningi gerð úttektar og birtingu niðurstaðna má finna í verklýsingum með verkferlum.

Sérstaklega er tekið fram í 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda að stjórnsýsluúttekt geti falið í sér mat á því hvernig stjórnvöld framfylgja áætlunum, lagafyrirmælum og skuldbindingum á sviði umhverfismála. Slík endurskoðun kallast umhverfisendurskoðun. Unnið er að þróun hennar á vettvangi alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana, INTOSAI, og Evrópusamtaka ríkisendurskoðana, EUROSAI. Nánari upplýsingar um umhverfisendurskoðun má nálgast hér.