Ríkisendurskoðun kannar meðferð og nýtingu almannafjár og bendir á leiðir til að bæta þessa þætti, samkvæmt 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda. Verkefnið kallast stjórnsýsluendurskoðun og er í raun mat á frammistöðu ráðuneyta, stofnana og annarra aðila sem nýta skattfé.

Í lýðræðisríkjum þurfa stjórnvöld að svara fyrir og axla ábyrgð á athöfnum sínum gagnvart löggjafa og almenningi (e. accountability). Til að þetta sé mögulegt þurfa að liggja fyrir upplýsingar um starfsemi, frammistöðu og árangur stjórnvalda á hverjum tíma. Stjórnsýsluendurskoðun (e. performance audit / d. forvaltningsrevision) er ein leið til afla slíkra upplýsinga. Hún er meðal meginverkefna ríkisendurskoðana hvarvetna í heiminum og mikilvægur þáttur í eftirliti löggjafans með framkvæmdarvaldinu. Alþjóðasamtök ríkisendurskoðana (INTOSAI) hafa mótað ítarlega staðla um stjórnsýsluendurskoðun.

Stjórnsýsluendurskoðun er í raun ein tegund frammistöðumats, þ.e. felst í almennri greiningu á því hvernig ráðuneytum, stofnunum og öðrum rekstraraðilum gengur að sinna lögbundnum verkefnum. Mat á frammistöðu getur tekið til hagsýni, þ.e. til verðs og gæða þeirra aðfanga sem þarf til viðkomandi starfsemi, skilvirkni, þ.e. hvort aðföng séu nýtt með þeim hætti að mesta mögulega magn afurða fáist, eða árangurs, þ.e. hvort eða að hvaða leyti markmið starfseminnar hafa náðst (sjá einnig 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga og lögskýringargögn).

Stjórnsýsluúttektir fela ekki einungis í sér mat á framangreindum þáttum heldur einnig ábendingar um hugsanlegar úrbætur. Þá er iðulega horft til breytinga á skipulagi, stjórnun og starfsaðferðum þeirra sem koma að verkefnunum, hvort sem um er að ræða ráðuneyti, stofnanir eða aðra. Margvíslegum aðferðum er beitt í úttektum og er m.a. leitað í smiðju rekstrar- og stjórnunarfræða og félagsvísinda. Ríkisendurskoðun hagar stjórnsýsluendurskoðun sinni í samræmi við lög um stofnunina og staðla INTOSAI.

Við mat á frammistöðu stofnana byggir Ríkisendurskoðun oft á einhvers konar samanburði, bæði innlendum og erlendum, og er þá ýmist horft til annarra stofnana, fyrri ára eða viðurkenndra mælikvarða. Skýrslurnar veita því ekki aðeins sértækar upplýsingar um frammistöðu tiltekinna stofnana heldur einnig um stöðu þeirra innan þess málaflokks sem þær tilheyra eða jafnvel um stöðu tiltekins málaflokks í heild sinni.

Stjórnsýsluúttektir Ríkisendurskoðunar eru jafnan sendar Alþingi og birtar opinberlega. Stofnunin leitast við að vekja athygli fjölmiðla og almennings á niðurstöðum stjórnsýsluúttekta í samræmi við upplýsingastefnu sína.

Samkvæmt 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda getur stofnunin gert stjórnsýsluúttektir hjá öllum þeim aðilum sem fjármagna starfsemi sína með ríkisfé, ríkið á að hálfu eða meira eða njóta framlaga úr ríkissjóði vegna þjónustu sem þeir veita. Nokkur hluti úttektanna er jafnan saminn að beiðni Alþingis, einstakra ráðuneyta eða ríkisstofnana. Aðrar eru unnar að frumkvæði Ríkisendurskoðunar og viðfangsefnin þá m.a. valin út frá fjárhagslegu umfangi þeirra, áhættumati, svigrúmi til úrbóta og fyrri úttektum stofnunarinnar.

Sérstaklega er tekið fram í 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda að stjórnsýsluúttekt geti falið í sér mat á því hvernig stjórnvöld framfylgja áætlunum, lagafyrirmælum og skuldbindingum á sviði umhverfismála. Slík endurskoðun kallast umhverfisendurskoðun og er eitt meginverkefni ríkisendurskoðana hvarvetna í heiminum. Unnið er að þróun hennar á vettvangi alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana, INTOSAI, og Evrópusamtaka ríkisendurskoðana, EUROSAI.

Á umliðnum árum hefur Ríkisendurskoðun gert nokkrar úttektir á sviði umhverfisendurskoðunar. Má þar m.a. nefna úttektir á framkvæmd samnings um verndun Norðaustur-Atlantshafsins (OSPAR)samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, löggjafar um skógrækt og loftgæðum á Íslandi.  Nánari upplýsingar um umhverfisendurskoðun má nálgast hér.

Gæðahandbók stjórnsýslusviðs

Starfsáætlun stjórnsýslusviðs 2016–18

Vinnuferli stjórnsýsluúttekta hjá Ríkisendurskoðun