Leiðbeiningar

til þeirra sem vilja greina frá upplýsingum eða miðla gögnum um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda þeirra sbr. 21. gr. a laga nr. 46/2016.

1. Lög um vernd uppljóstrara

Þann 12. maí 2020 samþykkti Alþingi lög nr. 40/2020 um vernd uppljóstrara. Með lögunum var nýju ákvæði bætt við lög um ríkisendurskoðanda og lög um endurskoðun ríkisreikninga. Lögin gilda frá og með 1. janúar 2021.

Markmið laganna er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi og þannig verði dregið úr slíkri háttsemi.

Lögin kveða á um að miðlun upplýsinga eða gagna að uppfylltum tilteknum skilyrðum teljist ekki brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu viðkomandi. Þannig verði ekki lögð refsi- eða skaðabótaábyrgð á þann sem miðlar upplýsingum eða gögnum og þá leiði upplýsingagjöfin ekki til stjórnsýsluviðurlaga eða íþyngjandi úrræða að starfsmannarétti. Þá er lagt sérstakt bann við því að láta hvern þann sæta óréttlátri meðferð sem miðað hefur upplýsingum eða gögnum.

2. Hverjir geta upplýst til Ríkisendurskoðunar?

Allir sem hafa upplýsingar eða gögn um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi þeirra sem falla undir starfssvið ríkisendurskoðanda hafa heimild til að greina ríkisendurskoðanda frá slíku og afhenda gögn þar að lútandi.

Starfssvið ríkisendurskoðanda tekur m.a. til eftirlits og endurskoðunar með ríkisaðilum svo sem stofnunum, sjóðum sem rekin eru á ábyrgð ríkisins og ríkisfyrirtækja þar með talið hlutafélaga, einkahlutafélaga og sameignarfélaga þar sem ríkið á helmingshlut eða meira.

3. Hvaða skilyrði eru fyrir vernd?

Upplýsingar og gögn verða vera afhentar í góðri trú. Með því er átt við að sá sem afhendir upplýsingar eða gögn hafi góða ástæðu til að telja upplýsingarnar sannar og að það sé í þágu almennings að miðla þeim og að ekki sé annar kostur til að koma í veg fyrir umrædda háttsemi. Vernd laganna nær ekki til þeirra sem miðla vísvitandi röngum eða villandi upplýsingum eða upplýsingum um smávægileg frávik í þeim tilgangi að koma höggi á vinnuveitendur sína eða aðra.

Þá þurfa upplýsingar eða gögn að snerta brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi. Með ámælisverðri háttsemi er átt við hátterni sem stefnir almannahagsmunum í hættu, t.d. heilsu eða öryggi fólks eða umhverfi án þess að um sé að ræða augljós brot á lögum eða reglum.

4. Hvernig fer upplýsingagjöf fram?

Þeir sem telja sig hafa upplýsingar og gögn um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi geta haft samband við Ríkisendurskoðun símleiðis í síma 448-8800, með tölvupósti á netfangið uppljostrun@rikisendurskodun.is eða með því að senda bréf til embættisins í Bríetartún 7, 105 Reykjavík, sem merkt er „Uppljóstrun“. Taka þarf fram hvort óskað sé eftir vernd samkvæmt ákvæðinu.

Ríkisendurskoðun ber að gæta trúnaðar um þær persónuupplýsingar sem berast eða sem aflað er nema sá sem veitir upplýsingarnar heimili afdráttarlaust að leynd sé aflétt.

5. Innihald upplýsinga

Upplýsingar þurfa að innihalda að lágmarki:
• Heiti eftirlitsskylds aðila, starfsmanna og/eða annarra aðila sem hlut eiga að máli.
• Lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem eiga við.
• Lýsingu á málavöxtum.

6. Hvað gerir Ríkisendurskoðun við upplýsingar og gögn sem berast?

Ríkisendurskoðun ber að gæta trúnaðar um þær persónuupplýsingar sem berast eða sem aflað er nema sá sem veitir upplýsingarnar heimili afdráttarlaust að leynd sé aflétt. Þannig er ekki greint frá því hver hafi upplýst Ríkisendurskoðun um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi.

Gögn og upplýsingar eru skoðaðar og metið hvort tilefni sé til aðgerða af hálfu Ríkisendurskoðunar. Aðgerðir af hálfu embættisins geta verið úttektir og skoðanir á viðkomandi stofnun eða máli. Ef Ríkisendurskoðun metur sem svo að hagfelldara og árangursríkara sé að framsenda upplýsingar og/eða gögn til annars stjórnvalds til meðferðar er það gert. Upplýsingar um uppljóstrara eru þó aldrei framsendar.

Ríkisendurskoðun skal upplýsa viðkomandi um hvort upplýsingarnar sem hafa verið afhentar hafi orðið tilefni til athafna þannig að vernd verði virk.

Persónuupplýsingum og öðrum gögnum verður eytt þegar þeirra er ekki lengur þörf við meðferð máls.