Iðnaðarráðuneytið hefur góða yfirsýn um skuldbindandi samninga

Iðnaðarráðuneytið hefur gert allmarga samninga við aðila utan ríkisins um að þeir taki að sér verkefni gegn greiðslum úr ríkissjóði. Ríkisendurskoðun telur að ráðuneytið hafi góða yfirsýn um þessa samninga en jafnframt að bæta þurfi ýmislegt í framkvæmd þeirra og umsýslu.Á undanförnum árum hafa einstök ráðuneyti eða stofnanir þeirra gert samninga við samtök, einkaaðila og sveitarfélög um rekstur, þjónustu eða önnur verkefni gegn greiðslum úr ríkissjóði. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um 22 slíka samninga iðnaðarráðuneytisins. Áætlað er að kostnaður við þá muni nema um 399 milljónum króna á þessu ári. Hér er m.a. um að ræða samninga við atvinnuþróunarfélög og samtök sveitarfélaga um atvinnuþróun (vaxtarsamninga) og samninga við samtök sveitarfélaga um menningarstarf (menningarsamninga), svo dæmi séu nefnd.
Að mati Ríkisendurskoðunar hefur ráðuneytið góða yfirsýn um þessa samninga og verklag við yfirferð þeirra er í nokkuð föstum skorðum. Hins vegar hafa verklagsreglur ráðuneytisins vegna samningamála ekki verið skjalfestar og telur Ríkisendurskoðun að úr því þurfi að bæta. Ráðuneytið hyggst efla samtímaeftirlit sitt með ákvæðum samninga sem gerðir verða frá og með árinu 2011 og gerir nú ríkari kröfur um árangursmat en áður. Að mati Ríkisendurskoðunar er þetta til fyrirmyndar.
Ríkisendurskoðun telur að iðnaðarráðuneytið þurfi að samræma ákvæði samninga og haga eftirliti í samræmi við þau, lög og reglugerðir. Þá telur stofnunin að þar sem því verði við komið eigi að tengja greiðslur við frammistöðu og/eða framvindu verkefna.
Ríkisendurskoðun ákvað fyrr á þessu ári að kanna framkvæmd, eftirlit og eftirfylgni ráðuneyta með samningum sem þau hafa gert við aðila utan ríkisins og skilgreindir eru sem „skuldbindandi samningar“ í fjárlögum. Birt verður sérstök skýrsla fyrir hvert ráðuneyti og er skýrslan um skuldbindandi samninga iðnaðarráðuneytisins sú fyrsta í röðinni.