Innanríkisráðuneytið styðji betur við starfsemi Ríkissaksóknara

Álag á embætti ríkissaksóknara hefur aukist verulega á undanförnum árum. Fjárveitingar hafa ekki aukist í takt við aukinn málafjölda hjá embættinu. Ríkisendurskoðun hvetur innanríkisráðuneytið til að beita sér fyrir því að Ríkissaksóknari fái nauðsynlegar fjárveitingar til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Þá telur Ríkisendurskoðun að kveða eigi skýrt á um sjálfstæði embættisins í lögum.Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds hér á landi. Hann fer með ákæruvald í flestum sakamálum. Einnig gefur hann út almenn fyrirmæli um meðferð ákæruvalds og hefur eftirlit með framkvæmd þess hjá ákærendum á lægra stigi: lögreglu og Sérstökum saksóknara. Þá tekur hann ákvörðun um áfrýjun mála fyrir hönd ákærenda og sækir slík mál fyrir Hæstarétti. Ákvarðanir ákærenda á lægra stigi er varða rannsókn og saksókn eru kæranlegar til Ríkissaksóknara. Starfsmenn embættisins voru 16 í ársbyrjun 2015.
Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að á undanförnum árum hafi málum sem koma til ákærumeðferðar hjá Ríkissaksóknara fjölgað verulega og þau orðið flóknari en áður. Á hinn bóginn hafi fjárveitingar til embættisins ekki aukist að sama skapi. Ein afleiðing þessa sé að afgreiðslutími sakamála hjá embættinu hafi að meðaltali lengst verulega. Hér er átt við tímann frá því að mál berst embættinu þar til ákvörðun um afgreiðslu þess liggur fyrir. Vegna fjölgunar slíkra mála og þess að þau njóta að jafnaði forgangs í starfseminni hafi embættið ekki getað sinnt sem skyldi samræmingar- og eftirlitshlutverki sínu gagnvart ákærendum á lægra stigi. Að mati Ríkisendurskoðunar verða ákæruvaldshafar á lægra stigi að lúta markvissu eftirliti og vinnubrögð þeirra að vera samræmd. Þetta er nauðsynlegt til að tryggja jafnræði og gagnsæi í störfum þeirra.
Að mati Ríkisendurskoðunar fer langur málsmeðferðartími hjá Ríkissaksóknara í bága við réttarfars- og stjórnsýslureglur. Sú regla að hraða beri meðferð sakamála er ein af grundvallarreglum íslensks réttarfars. Að mati Ríkisendurskoðunar er það alvarleg staða bæði fyrir brotaþola og sakborninga að sakamál sem varða þá dragist úr hömlu. Þá er mikilvægt fyrir rétt­ar­­öryggi borgaranna að sakamál skaðist ekki vegna of langs málsmeðferðartíma, t.d. að dómstólar virði sakborningi hann til refsilækkunar. Ríkisendurskoðun telur að innanríkisráðuneytið verði að styðja betur en nú við starfsemi embættisins. Meðal annars þurfi ráðuneytið að beita sér fyrir því að embættið fái nauðsynlegar fjárveitingar til að það geti sinnt hlutverki sínu með viðunandi hætti.
Í réttarríki er grundvallaratriði að ákæruvaldið sé sjálfstætt gagnvart öðrum stjórnvöldum. Í skýrslunnni er bent á að samkvæmt sakamálalögum skulu ákærendur ekki taka við fyrirmælum frá öðrum stjórnvöldum um meðferð ákæruvalds nema lög kveði sérstaklega á um það. Annars staðar í lögunum er mælt fyrir um eftirlit ráðherra með framkvæmd ákæruvalds. Þá er í lögum um Stjórnarráð Íslands kveðið á um að ráðherra hafi almennt eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum þeirra sjálfstæðu stjórnvalda sem undir hann heyra. Ríkisendurskoðun hvetur innanríkisráðuneytið til að beita sér fyrir því að lög kveði með skýrum hætti á um sjálfstæði ríkissaksóknara og eftirlitshlutverk ráðuneytisins.
Fram kemur að starfsmenn Ríkissaksóknara haldi ekki verkbókhald þar sem fram komi hve mörgum vinnustundum er ráðstafað til afgreiðslu einstakra mála. Hins vegar haldi embættið utan um upplýsingar um dagafjölda frá því að mál berst þar til það hlýtur afgreiðslu. Að mati Ríkisendurskoðunar ættu starfsmenn Ríkissaksóknara að færa verkbókhald til að bæta yfirsýn um starfsemina. Upplýsingar um fjölda vinnustunda vegna einstakra mála geti m.a. nýst við skipulagningu starfseminnar og til að rökstyðja þörf fyrir aukinn mannafla.