Innheimtumenn ríkissjóðs fái auknar lagaheimildir

Ríkisendurskoðun hvetur fjármála- og efnahagsráðuneytið til að beita sér fyrir því að innheimtumenn ríkissjóðs fái auknar lagaheimildir til að afla upplýsinga um fjárhags- og eignastöðu þeirra sem skulda opinber gjöld. Þá telur stofnunin að breyta eigi lögum til að skattyfirvöld og ársreikningaskrá geti samnýtt upplýsingar frá lögaðilum. Enn fremur þurfi að grípa til aðgerða til að bæta framtalsskil.Árið 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um innheimtu opinberra gjalda þar sem átta ábendingum var beint til fjármálaráðuneytisins (nú fjármála- og efnahagsráðuneyti) og einni til Fjársýslu ríkisins. Ábendingarnar lutu að ýmsum úrbótum á skipulagi og stjórnun innheimtumála. Nú þremur árum síðar telur Ríkisendurskoðun að brugðist hafi verið við sex af þessum níu ábendingum með þeim hætti að ekki sé þörf á að ítreka þær. Í nýrri eftirfylgniskýrslu ítrekar stofnunin hinar þrjár en þær beinast allar að fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að:

  • Beita sér fyrir því að innheimtumenn ríkissjóðs fái auknar lagaheimildir til að afla upplýsinga um fjárhags- og eignastöðu skuldara, m.a. með aðgangi að skattframtölum þeirra. Bent er á að innheimtuyfirvöld í nágrannalöndunum hafi slíkar heimildir.
  • Stuðla að því að lögum verði breytt þannig að ársreikningaskrá og skattyfirvöld geti samnýtt ársreikninga þegar þeim hefur eingöngu verið skilað til annars hvors þeirra.
  • Grípa til raunhæfra aðgerða til að bæta skil á skattframtölum. Bent er á að árið 2013 sætti tæplega þriðjungur lögaðila áætlun opinberra gjalda og um 5% einstaklinga.