Ísland og Ospar. Umhverfisendurskoðun

By 6.04.2004 2004 No Comments

Ríkisendurskoðun telur að íslensk stjórnvöld hafi staðið vel að því að innleiða Samning um verndun Norðaustur-Atlantshafsins í íslenskan rétt og fylgja honum eftir hér á landi. Erfiðara er að meta raunverulegan árangur af þessu starfi þar sem löggjöf um varnir gegn mengun hafsins snerta einnig ýmsa aðra mikilvæga þjóðréttarsamninga sem Ísland er aðili að.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar Ísland og OSPAR (mars 2004) er greint frá fyrsta verkefni stofnunarinnar á sviði umhverfisendurskoðunar, því hvernig Ísland hefur fylgt eftir svokölluðum OSPAR-samningi eða Samningi um verndun Norðaustur-Atlantshafsins sem gerður var árið 1992 og öðlaðist gildi árið 1998. Þetta er alþjóðlegur samningur 15 ríkja sem ætlað er að draga úr og koma í veg fyrir mengun í Norðaustur-Atlantshafi, m.a. innan íslenskrar efnahagslögsögu og á þeim hafsvæðum sem að henni liggja. Sem slíkur er hann afar þýðingarmikill fyrir íslenskan sjávarútveg og þjóðarbúið í heild.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er annars vegar greint frá því hvernig skuldbindingar samningsins hafa verið innleiddar í íslenskan rétt og hins vegar reynt að meta hvort innleiðing hans sé líkleg til að skila árangri við að sporna gegn mengun hafsins. Að mati Ríkisendurskoðunar hefur sjálf innleiðingin tekist vel þegar á heildina er litið og ljóst er að samningurinn er einn þeirra þjóðréttarsamninga sem umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun hafa haft til hliðsjónar á undanförnum árum við að móta stefnu og reglugerðir um verndun hafs og stranda. Nefna má að bæði hefur verið undirbúin ný heildarlöggjöf um slík mál og lögð rík áhersla á framkvæmdir í fráveitumálum.

Þó að OSPAR-samningurinn hafi án efa skilað talsverðum ávinningi er erfitt að meta gildi hans eins og sér því að íslensk löggjöf um varnir gegn mengun hafsins snertir einnig marga aðra þjóðréttarsamninga og samþykktir sem eru að ýmsu leyti efnislega hliðstæð honum. Íslensk stjórnvöld hafa ekki heldur haldið nákvæmt yfirlit um það hvernig OSPAR-samningurinn hefur verið innleiddur í íslenskan rétt. Slíkt yfirlit væri þó afar gagnlegt. Ekki aðeins auðveldaði það fólki að átta sig á innleiðingu samningsins heldur stuðlaði það líka að meira gegnsæi í stjórnsýslunni.