Ítrekar ábendingar til velferðarráðuneytis vegna vinnumarkaðsmála

Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að endurskoða stofnanaskipan á sviði vinnumarkaðsmála, t.a.m. með sameiningum stofnana. Þá telur Ríkisendurskoðun að meta þurfi ávinning þess að fagráð vinnumarkaðsmála, skipað fulltrúum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, leysi stjórn Vinnumálastofnunar og sjóða í hennar umsjá af hólmi. Enn fremur beri að kanna hvort fýsilegt sé að sameina greiðslukerfi vegna almannatrygginga. Loks hvetur Ríkisendurskoðun ráðuneytið til gera árangursstjórnunarsamning við Vinnumálastofnun.Árið 2008 birti Ríksendurskoðun skýrslu þar sem settar voru fram samtals tíu ábendingar sem vörðuðu stjórnun og skipulag Vinnumálastofnunar og stjórnsýslu vinnumarkaðsmála hér á landi. Þremur þeirra var beint til Vinnumálastofnunar og sjö til félags- og tryggingamálaráðuneytisins (nú velferðarráðuneyti). Árið 2011 kannaði Ríkisendurskoðun hvort og þá hvernig brugðist hefði verið við þessum ábendingum. Niðurstaðan af þeirri athugun gaf stofnuninni tilefni til að ítreka allar ábendingar sínar til ráðuneytisins. Tvær þeirra voru raunar sameinaðar í eina auk þess sem ábendingu sem áður hafði verið beint til Vinnumálastofnunar var nú beint til ráðuneytisins. Samtals var því sjö ábendingum beint til þess.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar hefur ráðuneytið brugðist við einni af þessum sjö ábendingum með þeim hætti að Ríkisendurskoðun telur ekki þörf á að ítreka hana. Stofnunin ítrekar hins vegar efnislega hinar sex en sameinar reyndar þrjár þeirra í eina:

  • Endurskoða þarf stofnanaskipan á sviði vinnumarkaðsmála. Í skýrslunni er nefnt að ráðuneytið áformaði um skeið að sameina stofnanir á þessu sviði, þ.e. Vinnumálastofnun og Vinnueftirlits ríkisins. Frumvarp þess efnis var lagt fram á Alþingi árið 2010 en hlaut ekki afgreiðslu.
  • Endurskoða þarf stjórnskipulag Vinnumálastofnunar og sjóða hennar. Ríkisendurskoðun telur að velferðarráðuneytið eigi að meta ávinning þess að stofna fagráð vinnumála, skipað fulltrúum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, sem komi í stað stjórnar Vinnumálastofnunar og stjórna sjóða sem eru í hennar umsjá.
  • Kanna þarf hvort fýsilegt er að sameina greiðslukerfi almannatrygginga. Ríkisendurskoðun bendir á að með þessu móti megi veita saman upplýsingum úr mörgum kerfum þannig að notendur þjónustunnar geti fengið eitt samræmt yfirlit um bætur og aðrar greiðslur.
  • Gera þarf árangursstjórnunarsamning við Vinnumálastofnun. Í skýrslunni kemur fram að Vinnumálastofnun hafi innleitt matslíkan sem margar stofnanir og sveitarfélög nota til að meta stjórnun sína og starfsemi. Ríkisendurskoðun telur að slíkt mat geti verið góður grunnur að árangursstjórnunarsamningi en komi ekki í stað hans.