Ítrekar ábendingu frá 2011 til umhverfis- og auðlindaráðuneytis

Ríkisendurskoðun ítrekar aðra af tveimur ábendingum sínum til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem settar voru fram í skýrslu um sorpbrennslustöðvar árið 2011. Ráðuneytið þarf að efla eftirlit sitt með starfsemi Umhverfisstofnunar og tryggja að ábyrgðarskipting milli þess og stofnunarinnar sé skýr. Hins vegar telur Ríkisendurskoðun ekki þörf á að ítreka þrjár ábendingar sem beint var til Umhverfisstofnunar í sömu skýrslu.Árið 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem fjallað var um aðlögun Íslands að tilskipun Evrópusambandsins (ESB) um brennslu úrgangs. Vegna aðildar landsins að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) bar stjórnvöldum að innleiða tilskipunina. Með aðlögun er tilskipun löguð að hagsmunum einstaks aðildarríkis eða ríkja. Í skilyrðum aðlögunarinnar fólst m.a. að sorpbrennslustöðvar áttu árlega að mæla losun á mengandi efnum. Losun eiturefnisins díoxíns skyldi mældi einu sinni. Þá skyldi endurskoða aðlögunina a.m.k. á fimm ára fresti. Þegar aðlögunin tók gildi árið 2003 náði hún til sjö sorpbrennslustöðva en árið 2011 voru einungis þrjár þeirra enn starfandi.

Í skýrslunni kom fram að íslensk stjórnvöld höfðu ekki fylgt skilyrðum aðlögunarinnar markvisst eftir. Ríkisendurskoðun taldi að ástæðan væri m.a. sú að ábyrgðarskipting milli umhverfisráðuneytisins (nú umhverfis- og auðlindaráðuneyti) og Umhverfisstofnunar hefði verið óljós. Þá hefðu sorpbrennslustöðvar ítrekað brotið gegn ákvæðum starfsleyfa og reglugerða og vanrækt að mæla losun mengandi efna. Eftirlit Umhverfisstofnunar með þeim hefði verið veikt og hún lítið beitt þvingunarúrræðum til að þrýsta á um úrbætur. Auk þess hefði stofnunin ekki lagt faglegt mat á niðurstöður mengunarmælinga og upplýsingamiðlun milli hennar og ráðuneytisins hefði verið ábótavant.

Ríkisendurskoðun beindi tveimur ábendingum til ráðuneytisins. Annars vegar bæri því að móta skýra stefnu um sorpeyðingu. Hins vegar þyrfti það að efla eftirlit sitt með starfsemi Umhverfisstofnunar. Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að stofnunin telur ekki þörf á að ítreka fyrri ábendinguna að svo stöddu þar sem mótuð hefur verið landsáætlun um meðhöndlun úrgangs og unnið er að því að breyta lögum um þetta efni. Aftur á móti ítrekar stofnunin seinni ábendinguna enda telur hún að ráðuneytið hafi ekki eflt sem skyldi eftirlit sitt með Umhverfisstofnun. Þótt Umhverfisstofnun hafi gert margvíslegar umbætur í starfsemi sinni frá árinu 2011 leysi það ráðuneytið ekki undan þeirri skyldu að hafa skipulegt eftirlit með henni. Að mati Ríkisendurskoðunar verður ráðuneytið auk þess að leggja Umhverfisstofnun lið þegar hún bendir á nauðsynlegar aðgerðir í umhverfismálum og tryggja að ábyrgðarskipting milli þess og stofnunarinnar sé skýr.

Í skýrslu sinni árið 2011 beindi Ríkisendurskoðun jafnframt þremur ábendingum til Umhverfisstofnunar. Stofnuninni bæri að starfa í samræmi við lög og reglugerðir, tryggja að faglegar áherslur væru ávallt í fyrirrúmi og að samanburður mengunarmælinga byggði á réttum forsendum. Ríkisendurskoðun telur að Umhverfisstofnun hafi nú brugðist við öllum þessum ábendingum með þeim hætti að ekki sé þörf á að ítreka þær.