Ítrekar ekki ábendingar um innheimtu sekta að svo stöddu

By 15.12.2015 2015 No Comments

Ríkisendurskoðun telur að í frumvarpi innanríkisráðherra til nýrra laga um fullnustu refsinga sé að hluta til komið til móts við ábendingar stofnunarinnar um innheimtu sekta og sakarkostnaðar. Stofnunin ítrekar ekki þessar ábendingar meðan frumvarpið er til meðferðar á Alþingi en hvetur þingið sérstaklega til að huga að tilteknum atriðum í þessu sambandi.

Árið 2012 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem fram kom að einungis lítill hluti dómsekta sem næmu átta milljónum króna eða meira skilaði sér í ríkissjóð. Ástæðan væri m.a. sú að flestir sektarþolar gerðu upp sektir sínar með ólaunaðri samfélagsþjónustu samkvæmt ákvörðun Fangelsismálastofnunar. Í skýrslunni beindi Ríkisendurskoðun fimm ábendingum til innanríkisráðuneytisins. Lagt var til að:

  • innheimtuaðilar fengju öflugri lagaúrræði til að takast á við undanskot sektarþola og rýmka heimildir til að kanna fjárhagsstöðu þeirra.
  • innheimtuaðilum yrði heimilað að krefjast þess að launagreiðandi héldi eftir hluta af launum sektarþola upp í skuld.
  • upplýsingakerfi þeirra aðila í kerfinu sem koma að innheimtu sekta og sakarkostnaðar yrðu tengd saman til að koma í veg fyrir margskráningu upplýsinga og tryggja öryggi gagna.
  • kannað yrði hvort tilefni væri til að rýmka heimildir innheimtuaðila til að semja við sektarþola um greiðsludreifingu.
  • réttur sektarþola til að afplána vararefsingu dómsektar með samfélagsþjónustu yrði skilyrtur við tilteknar fjárhæðir sekta.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Alþingi hafi nú til meðferðar frumvarp innanríkisráðherra til nýrra laga um fullnustu refsinga. Að mati Ríkisendurskoðunar sé þar að hluta til komið til móts við framangreindar ábendingar. Þá hafi ráðuneytið unnið að því að koma til móts eina þeirra.

Því telur Ríkisendurskoðun ekki rétt að ítreka ábendingarnar að svo stöddu. Hins vegar hvetur hún Alþingi sérstaklega til að huga að tveimur atriðum við afgreiðslu frumvarpsins. Annars vegar röksemdum sem fram hafa komið um kosti launaafdráttar við uppgjör sekta. Hins vegar fyrirkomulagi og reglum er varða afplánun vararefsinga dómsekta með samfélagsþjónustu.

Þess ber að geta að skýrsla Ríkisendurskoðunar árið 2012 var eftirfylgni með frumskýrslu stofnunarinnar um innheimtu sekta og sakarkostnaðar sem kom út árið 2009.