Keflavíkurflugvöllur. Vatnstjón

By 14.02.2008 2008 No Comments

Í lok nóvember 2006 óskaði utanríkisráðuneytið eftir því að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á eftirliti og umsýslu ráðuneytisins, stofnana þess og annarra aðila með byggingum á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli þegar vatnsskemmdir urðu á nokkrum bygginganna. Ríkisendurskoðun hefur lokið athugun sinni og sent utanríkisráðuneytinu greinargerð um málið. Meginniðurstaða stofnunarinnar er þessi:
Þótt finna megi að einu og öðru við yfirfærslu á mannvirkjum og rekstri á Keflavíkurflugvelli eftir brottför varnarliðsins, svo sem óljósri og óformgerðri hlutverkaskipan, fjárskorti eða síðbúnum fjárheimildum og nokkrum lausatökum við móttöku, vörslu og eftirlit með þróunarsvæðinu telur Ríkisendurskoðun mjög hæpið að álykta sem svo að umrætt vatnstjón megi rekja til beinnar vanrækslu þeirra sem ábyrgð báru á svæðinu, þ.e. utanríkisráðuneytisins og vinnuhópsins. Mun nær þykir að álykta sem svo að tjónið megi að mestu leyti rekja til atvika, sem erfitt var að sjá fyrir, einkum óvenjulegs veðurlags og óvenjulegs frágangs vatnslagna. Af þessum sökum væri ósanngjarnt að ásaka þá aðila sem ábyrgð báru á svæðinu á þeim tíma sem tjónið varð um vanrækslu á eftirlits- og viðhaldsskyldum.