Könnun á viðhorfi forstöðumanna til starfsmannamála

Niðurstöður könnunar Ríkisendurskoðunar á viðhorfi forstöðumanna ríkisstofnana til starfsmannamála voru kynntar á morgunverðarfundi á Grand hóteli í dag.Aðeins lítill hluti forstöðumanna ríkisstofnana telur að lög og reglur um starfsmannamál stuðli að hagkvæmum ríkisrekstri, samkvæmt könnun sem Ríkisendurskoðun hefur gert meðal þeirra. Ingunn Ólafsdóttir, sérfræðingur á stjórnsýslusviði stofnunarinnar, kynnti niðurstöður könnunarinnar á morgunverðarfundi sem Ríkisendurskoðun stóð að í dag ásamt Félagi forstöðumanna ríkisstofnana og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Á annað hundrað gestir sóttu fundinn en yfirskrift hans var „Starfsmannamál ríkisins – er breytinga þörf?“.
Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt á starfsmannamálum ríkisins og verða niðurstöður hennar birtar í nokkrum áfangaskýrslum. Áætlað er að sú fyrsta komi út um næstu mánaðamót en hún mun fjalla um reglur og aðferðir er varða starfslok ríkisstarfsmanna. Liður í úttektinni er viðhorfskönnun meðal forstöðumanna ríkisstofnana sem gerð var í júní sl. Ef marka má niðurstöður hennar hafa flestir forstöðumenn næga reynslu til að sinna starfsmannamálum en aðeins um helmingur þeirra metur frammistöðu starfsmanna með formlegum hætti. Þá telur rúmlega þriðjungur þeirra sig geta bætt þjónustu stofnunarinnar ef hluta starfsmanna yrði sagt upp og nýir ráðnir í þeirra stað.
Auk sérfræðings Ríkisendurskoðunar fluttu erindi á fundinum þau Katrín Ólafsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, Arnar Þór Másson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu. Glærur fundarins má nálgast hér.