Landið verði gert að einu innheimtuumdæmi

Ríkisendurskoðun telur að unnt sé að nýta mannafla sem starfar við innheimtu opinberra gjalda betur en nú er gert. Stofnunin leggur til að landið verði gert að einu innheimtuumdæmi undir stjórn Tollstjóra.Innheimta skatta og annarra opinberra gjalda hér á landi heyrir undir fjármálaráðuneytið en framkvæmdin er á hendi Tollstjóra og 23 sýslu­manna víðs vegar um landið. Þessir aðilar kallast innheimtumenn ríkissjóðs. Tollstjóri leiðbeinir öðrum innheimtumönnum og hefur eftirlit með vinnu þeirra en ekki boðvald yfir þeim.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar Innheimta opinberra gjalda kemur fram að í september 2010 voru úti­stand­andi kröfur ríkissjóðs um 222 milljarðar króna. Þar af sjá Tollstjóri og sýslumennirnir í Kópavogi og Hafnar­­firði um að innheimta 82%. Þessi embætti hafa hins vegar einungis yfir að ráða 40% þeirra stöðugilda sem sinna innheimtu opinberra gjalda á landinu öllu. 60% stöðugilda sjá þannig um að innheimta 18% af heildarfjárhæð útistandandi krafna.
Að mati Ríkisendurskoðunar bendir þetta eindregið til þess að unnt sé að auka skilvirkni innheimtunnar, þ.e. bæta nýtingu þess mannafla sem starfar við hana. Því leggur stofnunin til að landið verði gert að einu innheimtuumdæmi undir stjórn Tollstjóra. Með þessu yrðu innheimtumenn ekki bundnir ákveðnum stöðum heldur gætu starfað hvar sem er á landinu eða þar sem þörfin væri mest. Þess skal getið að í skýrslunni er ekki fjallað um þau áhrif sem breytingar á fyrirkomulagi innheimtumála gætu haft á aðra starfsemi sýslumannsembætta eða stöðu þeirra almennt.
Fjármálaráðuneytið hefur ekki mótað heildarstefnu um innheimtu opinberra gjalda með mælan­­legum mark­­miðum og skil­greindum að­gerðum. Að mati Ríkisendurskoðunar er brýnt að slík stefna verði mótuð. Þá leggur stofnunin til að svokölluð áhættustjórnun verði innleidd í innheimtunni. Hún gengur í stuttu máli út á að meta hvar eða í hvaða flokkum skatta og gjalda sé mest hætta á því að heimtur verði slæmar og bregðast við þessari hættu. Í þessu sambandi leggur Ríkisendurskoðun til að komið verði upp sérstakri greiningardeild hjá Tollstjóra.
Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að auka heimildir innheimtumanna til að afla upplýsinga um fjárhags- og eigna­­stöðu skuldara. Meðal annars þarf að veita þeim aðgang að skattframtölum skuldara sem þeir hafa ekki nú en innheimtuyfirvöld í nágranna­löndunum hafa.
Ýmsar fleiri ábendingar er að finna í skýrslunni, m.a. er þar lagt til að settar verði reglur um samskipti og upplýsingaflæði milli þeirra aðila innan stjórnsýslunnar sem koma að innheimtu opinberra gjalda. Þá kemur fram að dæmi séu um að innheimtumönnum hafi gengið erfiðlega að innheimta kröfur í bú gjaldþrota aðila þar sem dráttur hafi orðið á störfum slitastjóra. Lagt er til að fjármálaráðuneytið, í samvinnu við innanríkisráðuneytið, beiti sér fyrir auknu aðhaldi með skiptastjórum til að koma í veg fyrir að skipti dragist úr hófi.