Landspítali-háskólasjúkrahús. Árangur 1999-2004

By 28.12.2005 2005 No Comments

Stjórnendum Landspítala-háskólasjúkrahúss (LSH) gekk allvel að halda kostnaði við rekstur spítalans niðri á tímabilinu 1999-2004. Þá náðist ágætur árangur í að auka afköst hans og flytja þjónustu af legudeildum til dag- og göngudeilda. Samanburður við átta bresk sjúkrahús bendir einnig til þess að spítalinn standi sig ágætlega þegar horft er til afkasta og gæða. Það má hins vegar telja bagalegt fyrir spítalann að íslensk stjórnvöld hafa enn ekki mótað heildstæða stefnu um verkaskiptingu innan heilbrigðiskerfisins
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar Landspítali-háskólasjúkrahús. Árangur 1999-2004 kemur fram að raunkostnaður LSH stóð nánast í stað á árunum 1999-2004 þegar tekið er mið af launavísitölu opinberra starfsmanna og bankamanna og vísitölu neysluverðs á tímabilinu. Þá fækkaði stöðugildum við spítalann um 3%, einkum ófaglærðra starfsmanna. Háskólamenntuðum starfsmönnum fjölgaði aftur á móti nokkuð og m.a. þess vegna hækkuðu laun á hvert stöðugildi 5% meira en nemur meðaltalshækkun launa opinberra starfsmanna og bankamanna. Ríkisendurskoðun telur þó að stjórnendum spítalans hafi tekist ágætlega að halda kostnaði í skefjum og að þróunin hefði líklega orðið önnur ef ekki hefði orðið af sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík árið 1999.

Þrátt fyrir færri stöðugildi jukust afköst LSH um 9% á tímabilinu ef horft er til fjölda meðferða. Þetta er nokkuð meira en nemur fjölgun íbúa á landinu öllu (5,2%) og á höfuðborgarsvæðinu (7,2%) og sýnir að sjúkrahúsið hefur haldið hlutdeild sinni í heilbrigðisþjónustunni og vel það. Þá náðist verulegur árangur í því að flytja þjónustu af legudeildum til dag- og göngudeilda. Auk þess sem þetta hefur leitt til hagræðingar og sparnaðar er það í samræmi við almenna þróun í þeim löndum sem hafa hvað skilvirkast heilbrigðiskerfi. Þetta kann einnig að vera ein ástæða þess að hægt hefur á vexti þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga hér á landi úr 18% milli 1999 og 2002 í 3% milli 2002 og 2004.

Þó að raunkostnaður LSH hafi staðið í stað frá 1999-2004 var meðalkostnaður spítalans á hvert sjúkrarúm töluvert hærri en hjá átta breskum sjúkrahúsum sem Ríkisendurskoðun tók til samanburðar og munaði 21,3%. Þá var kostnaður við einstakar meðferðir að meðaltali 14% hærri en á bresku sjúkrahúsunum. Á þessu eru tvær meginskýringar. Annars vegar voru laun starfsfólks í heild um 26% hærri á LSH en á bresku sjúkrahúsunum. Hins vegar var meðallegutími tæplega hálfum degi lengri á spítalanum en á bresku sjúkrahúsunum þegar lengstu og stystu legurnar eru undanskildar.

Ekki reyndist teljandi munur á afköstum starfsfólks LSH og bresku sjúkrahúsanna og LSH kom einnig vel út þegar legutími 10 algengustu meðferða spítalans var athugaður. Vegna fimm meðferða var legutími styttri á LSH en á bresku samanburðarsjúkrahúsunum en lengri vegna þriggja. Þá kom LSH mjög vel út þegar borin er saman dánartíðni eftir nokkrar tegundir meðferða og eftir sérgreinum.

Í skýrslu sinni gagnrýnir Ríkisendurskoðun að stjórnvöld skuli enn ekki hafa mótað heildstæða stefnu um verkaskiptingu innan íslenska heilbrigðiskerfisins þar sem staða LSH er skilgreind. Þetta er sérstaklega bagalegt þegar hafðar eru í huga viðamiklar breytingar á starfsemi sjúkrahúsa í landinu á undanförnum árum, svo sem efling dag- og göngudeilda á kostnað legudeilda. Auk þess dregur þetta úr möguleikum spítalans til að efla og bæta þjónustu sína. Þá þarf einnig að leysa svonefndan fráflæðis- eða útskriftarvanda spítalans, þ.e. vanda þeirra sjúklinga sem eru í raun tilbúnir til útskriftar en skortir annars konar úrræði, einkum á öldrunar- eða hjúkrunarheimilum.

Ríkisendurskoðun bendir að lokum á að LSH þurfi að leggja enn meiri áherslu en gert hefur verið á að skrá upplýsingar um þá þjónustu sem veitt er á spítalanum, enda er slíkt mikilvægur þáttur í gæðastjórnun og nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að bera þjónustu ólíkra spítala saman. Þá hefur skortur á upplýsingum um kostnað LSH vegna kennslu m.a. orðið til þess að ekki hefur verið hægt að ganga endanlega frá samningi spítalans við Háskóla Íslands vegna kennslu, skilgreina kostnað vegna hennar sem menntakostnað og sjá til þess að fjárveitingar til hennar komi frá menntamálaráðuneyti en ekki heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti eins og nú er.