Launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana 2000-2002

By 2.03.2004 2004 No Comments

Launakostnaður nokkurra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni óx um 30,2% á árunum 2000-2002 og eru launatengd gjöld þá ekki talin með. Þetta er u.þ.b. tvöfalt meiri hækkun en launavísitala sama tímabils segir til um. Skýringarnar eru einkum þrjár. Í fyrsta lagi miklar umsamdar launahækkanir til sumra starfshópa, í öðru lagi launaskrið og í þriðja lagi aukið vinnuafl.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar Launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana 2000-2002 er leitað skýringa á umtalsverðri hækkun launakostnaðar nokkurra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni á tímabilinu 2000-2002. Alls hækkaði þessi kostnaður um 30,2% þrátt fyrir að fjármálaráðuneytið hefði metið kostnaðaráhrif kjarasamninga við starfsmenn stofnananna til 18-21% launahækkunar, allt eftir samsetningu starfsmannahóps.

Í skýrslu sinni tekur Ríkisendurskoðun til athugunar þróun heildarlauna eftirtalinna starfshópa: lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, tækni- og endurhæfingarfólks og starfsfólks í rekstri og umsýslu. Jafnframt bendir stofnunin á þrjár meginskýringar á umræddum launahækkunum.

Í fyrsta lagi hafa einstakir starfshópar fengið miklar umsamdar launahækkanir á tímabilinu 2000-2002, t.d. hafa laun lækna hækkað um 25,5% samkvæmt mati á kostnaðaráhrifum kjarasamninga og laun sjúkraliða um 31,5%. Í öðru lagi hefur orðið talsvert launaskrið innan sumra starfshópa, þ.e. launahækkanir umfram kjarasamninga. Þetta launaskrið er mismikið eftir hópum en mest hjá starfsfólki í rekstri og umsýslu og hjúkrunarfræðingum. Ástæður launaskriðsins eru m.a. staðbundnir samningar einstakra starfshópa um launahækkanir og samanburður þeirra við laun sambærilegra hópa á öðrum stofnunum. Í þriðja lagi hefur vinnumagn á umræddum heilbrigðisstofnunum aukist nokkuð á tímabilinu 2000-2002 eða að meðaltali um 4,9%. Þyngst vegur fjölgun ársverka lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er vakin athygli á því hversu mikill munur er á heildargreiðslum til lækna á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og hversu háar þær geta orðið þar sem þær eru hæstar. Árið 2002 námu hæstu heildargreiðslur til einstaks læknis tæpum 20 milljónum króna en tæpum 14 milljónum króna þar sem þær voru lægstar. Þess má geta að meðalárslaun hjúkrunarfræðinga á landsbyggðinni voru á bilinu 4,1-5,7 milljónir króna. Í skýrslunni kemur einnig fram að laun og aðrar greiðslur til lækna á landsbyggðinni eru verulega hærri en tíðkast á Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Árið 2002 námu meðallaun lækna sem þar vinna í fullu starfi um 9,5 milljónum króna.

Ríkisendurskoðun bendir á að nýtt launakerfi ríkisins og launakerfi sjúkrahúslækna gefi stjórnendum nú meiri möguleika en áður á að taka ákvarðanir um laun starfsmanna. Þetta krefst styrkrar stjórnunar og aðgangs að upplýsingum sem ekki liggja alltaf fyrir á smærri stofnunum. Því er miðlægur stuðningur fagráðuneyta afar mikilvægur. Þau þurfa að aðstoða stofnanir við að túlka óljós atriði í kjarasamningum og tryggja þeim aðgang að upplýsingum um launamál sem nýtast bæði við samningsgerð og eftirlit með launaþróun. Brýnt er að fjármálaráðuneyti og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti sinni þessum hlutverkum betur en hingað til.