Leiðréttingar og athugasemdir vegna minnisblaðs

Að beiðni fjárlaganefndar Alþingis tók Ríkisendurskoðun nýlega saman minnisblað um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins (RÚV) og fleiri aðila. Upplýsingar sem þar koma fram og varða málefni RÚV eru ekki að öllu leyti réttar. Þar sem fjallað hefur verið um minnisblað þetta á opinberum vettvangi, í forsíðufrétt Morgunblaðsins, vill Ríkisendurskoðun koma eftirfarandi leiðréttingum og athugasemdum á framfæri.Á fundi Ríkisendurskoðunar með fjárlaganefnd Alþingis 22. október sl. var m.a. rætt um fjárhagsmálefni Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) og fleiri aðila. Óskaði nefndin í framhaldi af því eftir að Ríkisendurskoðun tæki saman stutt minnisblað um þau mál. Minnisblaðið var sent nefndinni 13. nóvember sl.
RÚV hefur ávallt skilað Fjársýslu ríkisins ársreikningum sem eru áritaðir af stjórnendum og endurskoðendum félagsins eins og lög mæla fyrir um. Félagið birtir einnig árshlutauppgjör miðað við hálft ár. Þar sem reikningsár félagsins er frá 1. september til 31. ágúst hefur Fjársýsla ríkisins óskað eftir því að félagið skili einnig ársreikningum fyrir almanaksárið, þ.e. tímabilið 1. janúar til 31. desember. Ranghermt er í umræddu minnisblaði Ríkisendurskoðunar að uppgjör RÚV fyrir síðustu tvö almanaksár hafi ekki verið árituð. Hið rétta er að uppgjör fyrir síðasta almanaksár (2013) var áritað. Fjársýsla ríkisins hefur fyrir sitt leyti fallist á núverandi fyrirkomulag á uppgjörsmálum félagsins.
Í umræddu minnisblaði er fjallað um launakostnað félagsins fyrir tímabilið 1. september 2013 til 28. febrúar 2014 og hann borinn saman við sama tímabil árin þar á undan, þ.e. 1. september 2012 til 28. febrúar 2013. Samanburðurinn leiðir í ljós að launagjöld hækkuðu um 5,9% og stöðugildum fækkaði úr 296 í 273. Í minnisblaðinu er dregin sú ályktun að samdráttur í starfsmannahaldi hafi því ekki ennþá skilað sér í lægri launakostnaði fyrirtækisins. Félagið greip til verulegra samdráttaraðgerða með uppsögnum starfsfólks í árslok 2013. Þess er ekki að vænta að sparnaðar vegna þeirra aðgerða sjáist merki fyrr en síðar og því gefur staðan í lok febrúar þessa árs ekki mynd af núverandi stöðu.
Fram kemur í minnisblaðinu að stjórn félagsins hafi ákveðið að gera tilraun til að auka tekjur félagsins með því að leigja út skrifstofuhúsnæði í eigu þess auk þess sem hugað sé að eignasölu til að létta á skuldsetningu félagsins. Ranglega er fullyrt að ásókn í húsnæðið sé ekki mikil. Hið rétta er að stjórnendur RÚV hafa fundið fyrir miklum áhuga á húsnæðinu og telja góðar líkur á að innan skamms verði unnt að ganga frá samningum um leiguna. Einnig séu góðir möguleikar á að hægt verði að selja hluta lóðar undir nýbyggingar og einnig húsnæði félagsins ef stjórn tekur ákvörðun um að setja það í söluferli. Borgarráð hefur samþykkt að endurskipuleggja lóð félagsins að Efstaleiti þannig að mögulegt verði að hefja þar uppbyggingu og þegar hefur borist tilboð í fasteignina.
Í minnisblaðinu kemur fram að Ríkisendurskoðun telji ekkert benda til annars en að stjórn fyrirtækisins hafi ávallt verið upplýst um afkomu, stöðu og horfur í rekstri félagsins ásamt tillögum til aðgerða. Áréttað skal að hér er vísað til þess að Ríkisendurskoðun er ekki kunnugt um að upplýsingum um reksturinn hafi verið leynt fyrir stjórn eða þær settar fram með misvísandi hætti. Hins vegar má geta þess að stjórnarmenn í fyrri stjórn félagsins gerðu athugasemdir við það sem þeir töldu ófullnægjandi upplýsingagjöf um málefni félagsins og kemur það fram í fundargerðum þess. Fram hefur komið að núverandi stjórnendur félagsins hafa unnið með stjórn þess að því að bæta upplýsingagjöf til stjórnar og gera hana markvissari en áður.